Gætu þurft að greiða út 35 milljarða króna

„Það var tekið undir öll sjónarmið mín og í raun er dómurinn og niðurstaðan kennslustund í félagarétti,“ segir Vilhjálmur Bjarnason. Staðfesti Hæstiréttur niðurstöðuna gefur dómurinn öðrum hluthöfum fordæmi. Vilhjálmur segir að ef aðrir fara fram á það sama og hann sé um að ræða nærri 35 milljarða króna sem gamla stjórnin þarf að greiða.

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt fyrrverandi stjórn Glitnis banka til að greiða Vilhjálmi Bjarnasyni 1,9 milljónir króna í bætur vegna þess að Bjarni Ármannsson, fyrrverandi forstjóri bankans, seldi bankanum hlutabréf á yfirverði, sem öðrum hluthöfum bankans bauðst ekki.

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu, að stjórn Glitnis hafi hvorki gætt hagsmuna bankans né hluthafa þegar hún gekk frá kaupum á hlutum Bjarna Ármannssonar á yfirverði. Stjórnin hafi einnig mismunað  hluthöfum bankans. Henni hafi borið að sýna ráðdeild við meðferð eigna bankans en það hafi hún ekki gert í þessu tilfelli. Hafi stjórnin bakað sér skaðabótaábyrgð með þessari samningsgerð og beri að greiða Vilhjálmi bætur.

Vilhjálmur byggði bótakröfu sína á því, að honum hafi ekki verið gefinn kostur á því að selja bankanum hlutabréf sín á genginu 29, eins og Bjarni fékk, og kaupa þau aftur á genginu 26,66 sem var markaðsgengi bréfanna þennan dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert