Steingrímur J. nýtur mests trausts

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG.
Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG. mbl.is/Ómar

Traust til formanna stjórnarflokkanna mælist mun minna en í desember.
Formaður Vinstri grænna  er sá sem flestir segjast bera mikið traust til.
Fæstir segjast bera lítið traust til nýs formanns Framsóknarflokksins. Þetta kemur fram í nýrri skoðanakönnun MMR.

Flestir, eða 33,7%, segjast bera mikið traust til Steingríms J. Sigfússonar, formanns Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs. Þar á eftir kemur Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, nýkjörinn formaður Framsóknarflokksins,
en 23,2% segjast segist bera mikið traust til Sigmundar sem er réttum tveim prósentustigum færri en segjast bera lítið traust til hans. Vel yfir helmingur segist bera lítið traust til formanna Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingar og Frjálslynda flokksins.

Könnunin var gerð dagana 20. til 21. janúar en um síðustu helgi var Sigmundur Davíð kjörinn formaður Framsóknarflokksins og tók hann við embættinu af Valgerði Sverrisdóttur sem gegndi því tímabundið eftir að Guðni Ágústsson sagði af sér. 

Nokkrar breytingar mælast á trausti svarenda til formanna stjórnmálaflokkanna milli kannana. Af þeim formönnum sem mældir voru í desember s.l. er Steingrímur J. sá eini sem fleiri segjast bera mikið traust til núna en þegar síðast var mælt (aukning um slétt prósentustig). Aðrir formenn hafa ýmist látið af embætti eða lækkað mikið.

85,1% sjálfstæðismanna styðja formann flokksins

Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, nýtur nú mikils trausts meðal 21,5% svarenda en naut mikils trausts meðal 31,4% í byrjun desember.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir nýtur nú mikils trausts meðal 19,1% svarenda en naut mikils trausts meðal 31% í byrjun desember. Fjöldi þeirra sem kveðst bera lítið traust til formanna ríkisstjórnarflokkanna hefur aukist nokkuð: Í tilfelli Geirs úr 49,5% í 63,6% og í tilfelli Ingibjargar Sólrúnar úr 42,2% í 57,8%.

Séu niðurstöður greindar eftir stuðningi svarenda við stjórnmálaflokka kemur í ljós að Geir nýtur mests stuðnings meðal eigin flokksmanna - en
85,1% þeirra sem segjast myndu styðja Sjálfstæðisflokkinn segjast bera mikið traust til formannsins.

Þar á eftir kemur Steingrímur J. en 82,9% stuðningsmanna VG segjast bera mikið traust til hans. 78% Framsóknarfólks kveðst bera mikið traust til formanns síns, 64,7% stuðningsmanna Samfylkingarinnar segjast bera traust til formanns síns og 64,7% Frjálslyndra segjast bera mikið traust til formanns síns, Guðjóns Arnars Kristjánssonar.

Steingrímur J. Sigfússon er aftur á móti sá formaður stjórnmálaflokkanna sem nýtur mests traust meðal stuðningsmanna annarra flokka, að Sjálfstæðisflokknum undanskildum. Steingrímur nýtur mikils trausts meðal 36,8% Samfylkingarfólks, 27,9% Framsóknarmanna og 26,5% Frjálslyndra. Sjálfstæðismenn virðast aftur móti bera mest traust Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, af formönnum annarra flokka, en 28,5% Sjálfstæðismanna segjast bera mikið traust til hennar, að því er segir í tilkynningu frá MMR.

Nánar um skoðanakönnunina

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert