Veikindi Geirs mikið áfall

Bjarni Benediktsson ræðir við fréttamenn.
Bjarni Benediktsson ræðir við fréttamenn. mbl.is/Ómar

Alþingismenn og miðstjórnarmenn Sjálfstæðisflokksins, sem rætt var við í Valhöll nú síðdegis, voru á einu máli um það, að fréttir um veikindi Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, hafi verið mikið áfall.  

Kjartan Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, sagði að þetta væri mikið persónulegt áfall fyrir Geir H. Haarde og fjölskyldu hans og vitaskuld Sjálfstæðisflokkinn einnig. Kjartan sagðist aðspurður ekki geta neitað því að hann hefði frekar viljað hafa kosningar í haust eða vetur en þetta væri niðurstaðan (að halda kosningar í maí) og hann sætti sig við hana.

Kjartan sagði, að mikið starf biði við að byggja upp efnahag landsins að nýju.

Bjarni Benediktsson, alþingismaður, sagði að tilkynningin um veikindi Geirs hefði verið mikið áfall. Geir hefði skýrt frá þessu á miðstjórnarfundinum og fundarmenn hefðu ekki fengið neinn fyrirvara.

Bjarni sagðist ekki geta neitað því að hann væri að hugsa sín mál varðandi forustuhlutverki í flokknum og myndi gera það áfram á næstu dögum og vikum.

Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, sagði að þetta væri áfall fyrir þennan mikla foringja sem Geir væri. Guðlaugur Þór sagðist ekki geta neitað því að hann hugsaði um þá stöðu sem upp væri komin því það þyrfti að endurnýja forustu flokksins. Hann myndi íhuga þau mál áfram en hvernig sem færi myndi hann alltaf styðja forustu flokksins.

Kristján Þór Júlíusson, alþingismaður, sagðist harma þessi tíðindi. Hann sagðist aðspurður ætla að hugsa sinn gang um hvort hann sæktist eftir embætti í forustu flokksins. 

Kristján sagði einnig, að forsendur starfs Evrópunefndar flokksins hefðu nú breyst vegna þess að nú væri stefnt að landsfundi flokksins í loks mars í stað loka janúar en Kristján veitir nefndinni forustu ásamt Árna Sigfússyni.

Illugi Gunnarsson, alþingismaður, sagði að hugur hans væri hjá forsætisráðherra og fjölskyldu hans en vildi að öðru leyti ekki tjá sig við blaðamenn.

Kjartan Gunnarsson í Valhöll.
Kjartan Gunnarsson í Valhöll. mbl.is/Ómar
Kristján Þór Júlíusson.
Kristján Þór Júlíusson. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert