Fjórir þingmenn aðallega nefndir

Geir H. Haarde forsætisráðherra hættir sem formaður Sjálfstæðisflokksins á landsfundinum …
Geir H. Haarde forsætisráðherra hættir sem formaður Sjálfstæðisflokksins á landsfundinum í vor. Kristinn Ingvarsson

Fjórir þingmenn eru einkum orðaðir við formennsku í Sjálfstæðisflokknum, en það eru Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir varaformaður, Bjarni Benediktsson, Guðlaugur Þór Þórðarson og Kristján Þór Júlíusson.

Rætt er við 22 landsfundarfulltrúa um allt land í blaðinu í sunnudagsblaði Morgunblaðsins og nýtur Bjarni Benediktsson mests stuðnings meðal þeirra. Þá lýsa þrír þingmenn yfir stuðningi við Bjarna, þau Birgir Ármannsson, Ólöf Nordal og Sigurður Kári Kristjánsson.

Aðrir þingmenn og ráðherrar sem rætt var við gáfu ekki upp afstöðu sína og útilokuðu fæstir þeirra að gefa kost á sér til forystustarfa fyrir flokkinn á landsfundinum.

Miðstjórn hefur mælst til þess að kjördæmisráð raði á framboðslista fyrir landsfund, hvort sem það verður með prófkjöri eða uppstillingu. Það má því ljóst vera að niðurstöður úr prófkjörum geta haft áhrif á formannskjör.

„Þetta er eins og með kjólana í klæðaskápnum og konuna sem veit ekkert í hvaða kjól hún á að fara. Það eru svo margir færir forystumenn í Sjálfstæðisflokknum,“ segir Helgi Ólafsson á Raufarhöfn.

Þó nokkrir höfðu á orði að þeir væru slegnir eftir tíðindin af veikindum núverandi formanns Sjálfstæðisflokksins, Geirs H. Haarde. „Ég verð að segja fyrir mína parta að mér var mjög brugðið að heyra tíðindin,“ segir Ásbjörn Óttarsson í Snæfellsbæ. „Hugur minn er hjá Geir H. Haarde og fjölskyldu hans þessa stundina. Og eins og hann réttilega benti á sjálfur er til fullt af góðu fólki sem getur tekið við keflinu - ég kvíði því ekki.“

Unni Brá Konráðsdóttur á Hvolsvelli finnst margir koma til greina í forystu flokksins og hún segir Bjarna Benediktsson augljósan kandídat. „Ég veit ekki hvað Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir gerir. Illugi Gunnarsson kemur til greina, Árni Sigfússon og Kristján Þór Júlíusson.“

 Signý Ormarsdóttir á Egilsstöðum segir upp komna stöðu sem enginn sá fyrir. „En ég vil sjá konu. Nú er okkar tími kominn...“

Nánar í sunnudagsútgáfu Morgunblaðsins.

Bjarni Benediktsson
Bjarni Benediktsson
Guðlaugur Þór Þórðarson
Guðlaugur Þór Þórðarson
Kristján Þór Júlíusson
Kristján Þór Júlíusson
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert