Fréttaskýring: Lánin mögulega lögbrot

Ólafur Ólafsson, sem á þeim tíma var annar stærsti eigandi …
Ólafur Ólafsson, sem á þeim tíma var annar stærsti eigandi Kaupþings, ásamt meðlimi Al-Thani fjölskyldunnar og öðrum vinum í Flatey í sumar. Ljósmynd/Hanna Lilja

Í íslensku viðskiptalífi hafa þrifist viðskipti í skjóli bókstafs laganna sem færa má rök fyrir að séu undir ákveðnum kringumstæðum siðferðislega umdeilanleg. Ein tegund slíkra viðskipta er lán hlutafélags til tengdra aðila og til kaupa á hlutabréfum í sjálfu sér. Í lögum um hlutafélög er ákvæði sem leggur almennt bann við slíkum viðskiptum, en á banninu eru undantekningar.

„Að baki ákvæðinu liggur hættan á hagsmunaárekstrum, þ.e. reglunni er ætlað að koma í veg fyrir að fjármunir séu færðir úr sjóðum félaga til tengdra aðila með lánveitingum sem mögulega byggjast á öðrum sjónarmiðum en viðskiptalegum hagsmunum félagsins,“ segir Áslaug Björgvinsdóttir, dósent í félagarétti við lagadeild HR. Í ákvæðinu sem bannar þetta er hins vegar sérstök undanþága er snýr að fjármálafyrirtækjum. Lögmaður sem sérhæfir sig í félagarétti sagði í samtali við Morgunblaðið að sér hefði alltaf þótt þessi undanþága í lögunum undarleg og að hún byði heim hættunni á misnotkun. Bent hefur verið á að réttlæta megi tilvist ákvæðisins með hliðsjón af því stranga eftirliti og reglum sem bankar sæta á grundvelli laga um fjármálafyrirtæki.

Lánveitingar til eigenda án ábyrgðar

Kaup Ólafs Ólafssonar og sjeiks Mohamed Bin Khalifa Al-Thani á hlutabréfum í Kaupþingi í gegnum félagið Q Iceland Finance ehf. eru dæmi um viðskipti af þessu tagi. Þar veitti Kaupþing Ólafi, sem á þeim tíma var annar stærsti hluthafi bankans, lán fyrir helmingi kaupverðsins í gegnum félag hans sem skráð er á Jómfrúaeyjum, tryggt með veði í bréfunum sjálfum og án persónulegrar ábyrgðar hans sjálfs. Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, hefur sagt að engir fjármunir hafi farið úr Kaupþingi vegna fjármögnunar á kaupum sjeiksins, en fyrir liggur að bankinn keypti upp eigin bréf af öðrum fjárfestum til þess eins að selja sjeiknum.

Á kostnað annarra hluthafa

Áslaug Björgvinsdóttir segir að tilvist undantekningarinnar sem slíkrar breyti því ekki að stjórnendur hlutafélags verða að virða önnur ákvæði. Sem dæmi má nefna að í 76. gr. laga um hlutafélög segir að stjórn hlutafélags, framkvæmdastjóri og aðrir þeir sem hafa heimild til að koma fram fyrir hönd þess megi ekki gera neinar þær ráðstafanir sem bersýnilega eru fallnar til þess að afla ákveðnum hluthöfum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra hluthafa eða félagsins. Stefán Már Stefánsson, prófessor við lagadeild HÍ, segir í bók sinni Hlutafélög og einkahlutafélög: „Notkun fjármuna félagsins til að lána hluthöfum og trúnaðarmönnum félagsins eða til að fjármagna kaup á eigin hluta er almennt ekki talin til framdráttar starfsemi þess og getur auðveldlega orðið leið til óréttmæts hagnaðar lántakanda á kostnað félagsins.“ Stefán segir jafnframt að talin sé sérstök hætta á því að lán og ábyrgðir til þessara aðila séu oft veitt án fullnægjandi athugunar og að ákvarðanir um slík lán séu teknar gagnrýnislítið.

Samþykkis lánanefndar var ekki aflað

Lánveitingar til tengdra aðila í Kaupþingi, eins og Ólafs Ólafssonar, rétt fyrir hrun bankans, voru afgreiddar áður en lánanefnd stjórnar bankans tók tilhlýðilega ákvörðun um að samþykkja þau, en í lánanefnd sitja fulltrúar skipaðir af stjórninni sjálfri. Um er að ræða lán sem tengjast ekki viðskiptum sjeiksins. Í bankanum starfa ýmsar lánanefndir en lánanefnd stjórnar þarf að samþykkja meiriháttar lánveitingar. Þær upplýsingar fengust frá Kaupþingi að þetta hefði verið venjan, að ganga frá lánum áður en formlegt samþykki lánanefndar lægi fyrir, oft væri hringt í lánanefndarmenn þar sem þeir kæmu á framfæri athugasemdum. Reynslumikill lögmaður sem Morgunblaðið ræddi við sagði að slíkt fyrirkomulag bryti gegn öllum almennt viðurkenndum starfsaðferðum. „Það er ekkert viðkvæmara en viðskipti við tengda aðila og það þarf sérstaka umfjöllun [í lánanefnd]. Jafnframt er óheimilt samkvæmt lögum að láta tengda aðila fá hagstæðari viðskiptakjör en almenna viðskiptavini bankans,“ segir lögmaðurinn. „Menn hafa í framkvæmd, í neyð með einhverjar lánafyrirgreiðslur, afgreitt þær símleiðis [hjá lánanefnd], en aldrei viðskipti tengdra aðila. Það er alveg klárt.“

Markaðsmisnotkun varðar allt að 6 ára fangelsi

Sýndarviðskipti, sem falla undir markaðsmisnotkun, geta varðað allt að sex ára fangelsi, samkvæmt 117. gr. laga um verðbréfaviðskipti.

Um er að ræða viðskipti eða tilboð um viðskipti sem byggð eru á tilbúningi eða þar sem notuð eru einhver form blekkingar eða sýndarmennsku.

Öll form blekkingar falla undir þetta ákvæði laganna. Lögfræðingur sem Morgunblaðið ræddi við segir að ef dregin sé upp einhver mynd af viðskiptum, þegar raunveruleikinn er annar vegna skorts á upplýsingum, þá geti það hugsanlega fallið undir þetta ákvæði. Hann segir að ef sú staða komi upp að menn sem eigi í hlutabréfaviðskiptum og séu ekki að taka neina áhættu þá veki það spurningar um hvort ekki sé nauðsynlegt að upplýsa um það.

Í venjulegum hlutabréfaviðskiptum er tekin ákvörðun um kaup á grundvelli hagnaðarvonar með þeirri áhættu sem slíkum viðskiptum fylgir. Þegar fjársterkur og öflugur aðili kaupir hlutabréf skráðs félags sendir það þau skilaboð út á markaðinn að viðkomandi líti svo á að hlutabréf félagsins séu verðugur fjárfestingarkostur.

Einnig fellur það undir markaðsmisnotkun í áðurnefndu ákvæði laganna um verðbréfaviðskipti að dreifa orðrómi eða fréttum sem gefa eða eru líklegar til að gefa rangar eða misvísandi upplýsingar eða vísbendingar um fjármálagerninga, t.d. kaupsamninga, enda hafi sá sem dreifði upplýsingunum vitað eða mátt vita að upplýsingarnar voru rangar eða misvísandi.

Ekki voru gefnar upplýsingar til almennings um hvernig viðskiptin urðu til þegar kaup sjeiks Mohamed Bin Khalifa Al-Thani voru kynnt í september sl. Ekkert lá fyrir á þeim tíma að áhætta sjeiksins af viðskiptunum væri engin og ekki lá fyrir að Ólafur Ólafsson hefði fjármagnað þau til helminga með láni frá Kaupþingi, án persónulegrar ábyrgðar. Það er hins vegar sjálfstætt athugunarefni hvort sú staðreynd, að þeir hafi látið hjá líða að tilkynna um tilurð viðskiptanna, falli undir undir áðurnefnt ákvæði um markaðsmisnotkun.

Getuleysi stjórnvalda og fjármálaeftirlits til að upplýsa um meinta hvítflibbaglæpi í bankaheiminum hefur legið undir gagnrýni almennings. Á netinu krefst almenningur aðgerða vegna meintra brota og vill eignir auðmanna kyrrsettar. Hafa skilvirk viðbrögð danskra stjórnvalda í máli Steins Baggers verið nefnd í þessu samhengi. Brot hans voru hins vegar í reynd hreinn þjófnaður og svikamyllan svo víðtæk að önnur eins dæmi þekkjast vart á Norðurlöndum. Auk þess var hann á flótta undan réttvísinni í tíu daga áður en hann gaf sig sjálfur fram. Í 76. gr. hlutafélagalaga segir að stjórn hlutafélags megi ekki gera neinar ráðstafanir sem bersýnilega eru til þess fallnar að afla ákveðnum hluthöfum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra hluthafa. Ef hluthafar Kaupþings telja sig hlunnfarna vegna viðskipta rétt fyrir hrunið eiga þeir þess kost að stefna stjórn félagsins og krefjast skaðabóta. Vilhjálmur Bjarnason lét reyna á þetta vegna kaupa þáverandi stjórnar Glitnis á hlutabréfum Bjarna Ármannssonar á yfirverði og vann sitt mál í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Þeirri niðurstöðu verður áfrýjað til Hæstaréttar. Starfsmenn hinna almennu lánanefnda bankanna voru oftast starfsmenn skipaðir af stjórnendum og stjórn bankanna og undir agavaldi þeirra. Í lögum um fjármálafyrirtæki er fjallað sérstaklega um heimild stjórnarmanna til afskipta af einstökum málum.

Er sérstaklega tekið fram að stjórn skuli ekki taka þátt í ákvörðunum um einstök viðskipti, nema umfang þeirra sé verulegt miðað við stærð fyrirtækisins. Þar segir jafnframt að einstakir stjórnarmenn skuli ekki hafa afskipti af ákvörðunum um einstök viðskipti.

Kaarlo Vilho Jännäri, fyrrverandi forstöðumaður finnska fjármálaeftirlitsins, vinnur nú í umboði ríkisstjórnarinnar að gerð sérstakrar skýrslu um regluverk og starfshætti við fjármálaeftirlit hér á landi. Hann var ráðinn til verksins um miðjan nóvember.

Jännäri er staddur hér á landi og hefur vinnuaðstöðu í Fjármálaeftirlitinu þar sem hann nýtur aðstoðar sérfræðinga Fjármálaeftirlitsins og annarra embættismanna. Áætluð verklok Jännäris eru í lok mars og er skýrslugerð hans á áætlun, samkvæmt upplýsingum frá FME.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert