Samkomulag um hvalveiðar?

Japanskt hvalveiðiskip við bryggju.
Japanskt hvalveiðiskip við bryggju. Reuters

Bandaríkin reyna nú að ná samkomulagi innan Alþjóðahvalveiðiráðsins sem gæti leitt til þess að takmarkaðar hvalveiðar í atvinnuskyni yrðu leyfðar á ný. Bandaríska blaðið Washington Post segir, að fundir séu haldnir fyrir luktum dyrum á Hawaii í þessu skyni.

Blaðið vísar í gögn, sem það hafi undir höndum, og segir að William Hogarth, formaður Alþjóðahvalveiðiráðsins, reyni nú um helgina að koma á samkomulagi um að leyfðar verði takmarkaðar strandveiðar á hrefnu við Japan en á móti skuldbindi Japanar sig til að draga úr vísindaveiðum á hval í Suðurhöfum, sem þeir hafa stundað síðustu ár og áratugi. 

Washington Post segir hins vegar að þessi áform mæti mikilli andstöðu í röðu hvalveiðiandstæðinga.  Haft er eftir Hogarth, að hann viti vel að það yrði afar umdeilt ef strandveiðar af þessu tagi yrðu leyfðar en mikilvægt sé að ná samkomulagi við Japana svo starfið í Alþjóðahvalveiðiráðinu geti haldið áfram. 

Blaðið vitnar í tölvupóst frá  Joji Morishita, aðalsamningamanni Japana, um að niðurstaða viðræðnanna geti ráðið úrslitum um hvort hvalveiðiráðið verði starfhæft.

„Þetta er tími ákvarðananna," sagði hann. „Það þarf að taka mjög mikilvægar og mjög alvarlegar ákvarðanir. Alþjóðahvalveiðiráðið stendur á tímamótum og gæti vel hrunið saman." 

Skipan Hogarths sem formanns Alþjóðahvalveiðiráðsins rennur út á ársfundi ráðsins, sem haldinn verður á Madeira í Portúgal í júní. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert