„Nú reynir á Vinstri græna"

Stefanía Óskarsdóttir (fremst) með þeim Herdísi Sæmundardóttur og Valgerði Sverrisdóttur.
Stefanía Óskarsdóttir (fremst) með þeim Herdísi Sæmundardóttur og Valgerði Sverrisdóttur. mbl.is/Þorkell

Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur segir að nú reyni á forsvarsmenn stjórnmálaflokkanna að sýna hvað í þeim býr. Þetta eigi ekki síst við um Vinstri græna sem þurfi nú að ákveða hvort þeir vilji axla ábyrgð korteri fyrir kosningar.

Stefanía segir að þó ljóst hafi verið að ríkisstjórnarsamstarfið væri að líða undir lok sitji Samfylkingin, og þá sérstaklega Samfylkingarfélagið í Reykjavík, uppi með það að hafa rofið samstarfið. Hún telji hins vegar þá hugmynd Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur að bjóða Jóhönnu Sigurðardóttur fram sem forsætisráðherraefni flokksins mjög skynsamlega enda njóti Jóhanna mikils trausts.

Mikilvægast sé að mynda starfshæfa ríkisstjórn og takast á við þau verkefni sem bíða. „Við höfum ekki efni á neinum hringlandshætti núna. Þannig að nú reynir virkilega á þetta fólk. Nú þurfa Vinstri grænir að sýna hvað í þeim býr og Samfylkingin að sýna hvernig hún getur unnið úr þeirri stöðu sem hún er sökuð um að hafa skapað. Það á eftir að koma í ljós hvort þessir flokkar geta unnið saman annað hvort innan þjóðstjórnar eða á grundvelli þess tilboðs sem liggur á borðinu frá Framsóknarflokknum um að verja minnihlutastjórn þeirra."

Stefanía segir mikið í húfi að að vel takist til næstu vikur og mánuði. Þá segir hún stöðuna hættulega þar sem mikil sárindi geti myndast við slík stjórnarslit og það geti í kjölfarið haft mikil áhrif á stjórnarmyndun. „Slíkt gleymist ekki í íslenskri pólitík," segir hún.

„Við sáum dæmi um slíkt árið 1956 er Framsóknarflokkurinn sleit ríkisstjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.  Þessir tveir flokkar settust ekki aftur saman í ríkisstjórn fyrr en árið 1974."

Spurð um áhrif stjórnarslitanna í dag á komandi kosningar segir Stefanía að vel megi líta svo á að gott sé fyrir kjósendur að fá að sjá það fyrir kosningar hvort Vinstriflokkarnir geti unnið saman. Þá segir hún þingrofsvaldið enn vera hjá forsætisráðherra og hann hafi það í hendi sér að fara á fund forseta og óska eftir að þing verði rofið og boðað til kosninga. Þær gætu þá í fyrsta lagi farið fram eftir 45 daga. Enn sé hins vegar mjög óljóst hver þróunin verði.

Jóhanna Sigurðardóttir.
Jóhanna Sigurðardóttir.
Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG,
Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert