Prófessor í stjórnmálafræði: Óvenjulegt frumkvæði

Ólafur Ragnar Grímsson og Ólafur Þ. Harðarson. Kristín Ingólfsdóttir, rektor, …
Ólafur Ragnar Grímsson og Ólafur Þ. Harðarson. Kristín Ingólfsdóttir, rektor, er á milli þeirra. Mbl.is / Kristinn

 Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði, segir að forsetinn sé að gera sig meira gildandi og sýni óvenjulega mikið frumkvæði, um það hlutverk sem forsetinn virðist vera að marka sér í stjórnarmyndun.

Ólafur segir jafnframt að fram hafi komið áður að Ólafur Ragnar Grímsson telji að þingrofsrétturinn sé hjá embætti forseta. „Hann lítur svo á að forsætisráðherra hafi tillögurétt en forsetinn meti það sjálfstætt hvort hann verði við óskinni eða ekki,“ segir Ólafur.

Ólafur bendir á að Sveinn Björnsson forseti neitaði Ólafi Thors, þáverandi forsætisráðherra, um þingrof árið 1950 en þá hafði áður verið samþykkt vantraust á ríkisstjórnina, sem sat í skjóli minnihluta. „Ég er ekki viss um hvort þessi ákvæði um þingrofsréttinn séu nægilega skýr.“

Aðspurður um þau orð Ólafs Ragnars að ekki komi til greina að veita stjórnarmyndunarumboð í kvöld segir Ólafur Þ. að formenn, sem komi sér saman um stjórn og hafi þingmeirihluta á bakvið sig og bendi á tiltekinn mann, þá beri að veita þeim manni umboðið, það sé alveg skýrt.

„Það er einnig óvenjulegt að forseti geri þetta með þessum hætti. Hann er að gera sig meira gildandi og er að sýna óvenjulega mikið frumkvæði. Hann getur auðvitað rætt við formenn flokkanna um það sem hann vill en hins vegar semur hann ekki stjórnarsáttmála eða segir formönnum fyrir verkum. Það er alveg ljóst. Ef það er skýr meirihluti fyrir myndun ríkisstjórnar hefur hann ekkert svigrúm. Ef stjórnmálamenn koma sér ekki saman um stjórn er svigrúm forsetans hins vegar meira,“ segir Ólafur.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert