Fjármálaráðuneyti of svifaseint

Jón Sigurðsson
Jón Sigurðsson

Fjármálaeftirlitið (FME) er nú án stjórnar eftir að Björgvin G. Sigurðsson sagði af sér sem viðskiptaráðherra og stjórnendur FME einnig.

Jón Sigurðsson, sem sagði af sér sem formaður stjórnar eftirlitsins á dögunum, segir mikil og erfið verkefni á herðum eftirlitsins. „Starfsfólk eftirlitsins hefur staðið sig gríðarlega vel við erfiðar aðstæður og það er ekki við það að sakast, þegar horft er til bankahrunsins,“ segir Jón og nefnir sérstaklega að það væri afrek í sjálfu sér að tekist hefði að halda grunnfjármálaþjónustu í landinu gangandi með því að stofna þrjá nýja banka úr innlenda hluta stóru bankanna þriggja og fela skilanefndum að annast eignavörslu fyrir erlenda hlutann í byrjun október.

Jón segir rætur þess að bankarnir hrundu vera djúpstæðar. Það hafi margir greinendur, bæði innlendir og erlendir staðfest. „Það eru margir sem rekja þetta til einkavæðingar bankanna. Ég tel einnig að það sé hægt að rekja ýmislegt til laga um hlutafélögin og fjármálamarkaðinn, og hvernig þau gerðu eftirlit erfitt og stundum nær ómögulegt,“ segir Jón. Hann vitnar til þess að í kjölfar breytinga á lögum um hlutafélög hafi orðið til ofgnótt einkahlutafélaga og annarra félaga, sem hafi „ruglað menn í ríminu“ og gert eftirlit erfiðara en ella. „Ég held að FME hafi ekki verið eflt nægilega meðfram þeim ofvexti sem varð á fjármálamarkaði á undraskömmum tíma.“

Verkefni langt komin

Íris Björk Hreinsdóttir, lögfræðingur hjá Fjármálaeftirlitinu, segir það síðan um miðjan október hafa rannsakað hvort brotið hafi verið gegn þeim lögum sem Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með í starfsemi bankanna þriggja sem komust í greiðsluþrot í byrjun þess mánaðar. „Líklegt er að fyrstu niðurstöður úr rannsóknum Fjármálaeftirlitsins (FME) í tugum mála sem tengjast bankahruninu í október í fyrra muni liggja fyrir innan nokkurra vikna,“ segir hún. „Með miklum dugnaði starfsfólks hefur gengið vel að hraða rannsókn á þeim málum sem komið hafa inn á okkar borð,“ segir Íris. Mikil vinna hafi farið í að forgangsraða málum eftir umfangi, lagagreinum sem sérhvert mál fellur undir og almennu flækjustigi. Vel hafi gengið að vinna úr skýrslum endurskoðunarfyrirtækja, og erlendra sérfræðinga, um starfsemi bankanna.

Jón Sigurðsson segir fjármálaráðuneytið og önnur ráðuneyti ekki hafa unnið nægilega hratt að því að skilja á milli verkefna nýju og gömlu bankanna. „Ég tel að það hafi vantað ákveðnari forystu af hálfu ríkisins um það hver fer raunverulega með þau mál og hvernig á að leysa þau. Það skiptir miklu máli fyrir einstaklinga og fyrirtæki í landinu að úr þessu sé leyst farsællega. Menn hafa verið of seinir í svifum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert