Gunnar Páll: „Starfaði af fullum heilindum“

Gunnar Páll Pálsson
Gunnar Páll Pálsson mbl.is

Gunnar Páll Pálsson, formaður VR, skrifaði öllum trúnaðarmönnum félagsins í dag þar sem hann segist hafa axlað ábyrgð og biður um stuðning til áframhaldandi setu í formannsstólnum. Fundur trúnaðarráðs og trúnaðarmanna VR funda í kvöld þar sem kosið verður um hvern þeir styðja til formennsku. 

Gunnar Páll segir í bréfinu að sumt af umfjöllun í fjölmiðlum undanfarið um störf sín fyrir Kaupþing sé „hreinlega ósatt og annað slitið úr samhengi.“ Hann segir: „Þær ákvarðanir sem ég stóð að í september sl. í stjórn Kaupþings voru teknar miðað við fyrirliggjandi gögn um að bankinn væri fjármagnaður næsta árið. Það hvarflaði aldrei að mér, frekar en öðrum, að bankakerfið myndi hrynja. Ég starfaði að fullum heilindum út frá þeim upplýsingum sem fyrir lágu. Það er auðvelt að gagnrýna eftirá ýmsar ákvarðanir sem teknar voru fyrir hrunið.“

Gunnar segir ennfremur: „Ég hef mætt þeirri gagnrýni sem komið hefur fram á störf mín í stjórn bankans og svarað fyrirspurnum fjölmiðla af hreinskilni. Ég boðaði til félagsfundar í VR í nóvember þar sem ég gerði grein fyrir máli mínu, en þann fund sátu yfir fimmhundruð félagsmenn. Ég ákvað að axla ábyrgð og lagði því  til á fundinum að kjörtímabil mitt yrði stytt um rúmt ár og boðað yrði til kosninga. Félagsfundurinn samþykkti að við færum þessa leið og nú er komið að kosningum. Einn mótframbjóðandi minn hefur skorað á mig að fara að dæmi Björgvins G. Sigurðssonar fyrrverandi viðskiptaráðherra. Ég tel mig hafa gengið lengra en hann með því að boða til kosninga. Björgvin hefur lýst því yfir að hann ætli að bjóða sig fram aftur og sama geri ég.“
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert