Grænfriðungar fordæma hvalveiðar Íslendinga

Sjávarútvegsráðherra heimilaði í gær hvalveiðar í atvinnuskyni til ársins 2013.
Sjávarútvegsráðherra heimilaði í gær hvalveiðar í atvinnuskyni til ársins 2013. mbl.is/ÞÖK

„Að okkar mati þá er þetta blygðunarlaus aðgerð af hálfu fráfarandi ríkisstjórnar,“ segir Dave Walsh, hjá Greenpeace International, spurður út í ákvörðun fráfarandi sjávarútvegsráðherra, Einars K. Guðfinnssonar, að heimila hvalveiðar í atvinnuskyni.

„Hvalveiðar í atvinnuskyni munu hafa neikvæð áhrif á Ísland, og þær munu svo sannarlega ekki bæta efnahagsástandið. Íslendingar ættu fremur að einblína á það að efla ferðamannaiðnaðinn og hvalaskoðun, í stað þess að veiða hvali,“ segir Walsh og bætir við að þetta varði ekki síst ímynd Íslands út á við.

Ný ríkisstjórn er í smíðum og að sögn Walsh verður hún beðin um að hverfa frá þessari ákvörðun. „Við teljum að þessi ákvörðun hafi verið tekin til að koma nýju stjórninni í óþægilega stöðu. Við vonum því að nýja ríkisstjórnin muni snúa við ákvörðuninni sem fyrst.“

Verði ákvörðuninni ekki hnekkt munu samtökin halda áfram að beita íslensk stjórnvöld þrýstingi að sögn Walsh.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert