„Ótrúlega ómerkilegt“ af Samfylkingu

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar með flokksbræðrum sínum.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar með flokksbræðrum sínum. mbl.is/Golli

Það gengu aldrei nein blöð á milli í viðræðum forystu Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks um helgina, að því er heimildir innan Sjálfstæðisflokksins herma. Þykir „ótrúlega ómerkilegt“ að halda því fram að Samfylkingin hafi lagt fram lista með tíu atriðum, þegar hún hafi í raun aðeins lagt áherslu á fjögur mál.

Margt af því sem er á svonefndum aðgerðalista Samfylkingarinnar, sem birtur var í Morgunblaðinu í gær, höfðu sjálfstæðismenn raunar aldrei heyrt um, svo sem að færa niður veðstöðu lána og bæta réttarstöðu skuldara, bjargráðasjóð heimilanna og aðkomu auðmanna.

Það sé til marks um að verið sé að slá ryki í augu fólks, að ekki sé á listanum að Samfylkingin hafi krafist þess að fá forsætisráðuneytið, „sem kom á daginn að var algjört aðalatriði og skilyrði fyrir hinu“.

Fram kemur að atriðin fjögur, sem Samfylkingin lagði áherslu á í viðræðum við Sjálfstæðisflokkinn, lutu í fyrsta lagi að áframhaldi á efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þar hafi ekki staðið á Sjálfstæðisflokknum.

Í öðru lagi snerust þau um stjórnarskrárbreytingar.

Í þriðja lagi um „svokallaða tiltekt“ í Seðlabankanum, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hafi fyrir löngu sagst tilbúinn í lagabreytingar, sem gætu leitt til breytinga á yfirstjórn Seðlabankans, en byggðust á tillögum frá erlendum sérfræðingum sem fengnir höfðu verið til að skoða skipulag Fjármálaeftirlitsins og hugsanlega sameiningu þess við Seðlabankann.

Og fjórða atriðið sneri að aðgerðum í þágu heimilanna, sem hefði áreiðanlega samist um.

Sjálfstæðisflokkurinn bætti við fimmta liðnum, aðgerðum í þágu atvinnulífsins til að sporna við atvinnuleysi. Ekki var minnst á slíkar aðgerðir af forystu Samfylkingarinnar í viðræðunum og er það raunar ekki heldur á tíu atriða listanum sem birtist í Morgunblaðinu í gær.

Sjálfstæðismenn telja fullljóst að ekki hefði þurft að vera ágreiningur um þessi efnislegu atriði, heldur hafi verið settur á svið ágreiningur um forystuna í ríkisstjórninni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert