Nokkur fyrirtæki á skilafresti

Eftirlit verður hert með réttindum iðnaðarmanna og launagreiðslum.
Eftirlit verður hert með réttindum iðnaðarmanna og launagreiðslum. Haraldur Guðjónsson

Fagfélagið, sem er stéttarfélag byggingariðnaðarmanna í Reykjavík og Eyjafirði, ætlar að herða eftirlit með launagreiðslum og að ófaglærðir gangi ekki í störf faglærðra nú þegar þrengir að á vinnumarkaði. „Við erum á vinnustöðum að kanna réttindi manna og einnig kjör þeirra til að tryggja að það sé ekki verið að keyra þá niður fyrir launataxta,“ sagði Finnbjörn A. Hermannsson, formaður Samiðnar og Fagfélagsins. 

„Það eru nokkur fyrirtæki á skilafresti að skila inn launaseðlum fyrir sína starfsmenn og einnig pappírum um réttindi þeirra. Svo munum við ganga úr skugga um að bæði réttindapappírarnir og launaseðlarnir séu réttir. Það hafa allir tekið vel í þessa málaleitan okkar, svo er bara að sjá hverjar efndirnar verða,“ sagði Finnbjörn.

Trésmíðafélag Reykjavíkur, sem nú er hluti Fagfélagsins, hefur verið með sérstakan starfsmann í eftirliti af þessu tagi undanfarin sex ár. „Við munum auka það eftirlit nú til muna og fara oftar út en við höfum gert,“ sagði Finnbjörn. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert