Ráðherrar afsali sér biðlaunarétti

Fráfarandi ríkisstjórn Geirs H. Haarde.
Fráfarandi ríkisstjórn Geirs H. Haarde. mbl.is/Brynjar Gauti

Stjórn Samfylkingarinnar í Rangárvalla- og V-Skaftafellssýslu skorar á þá ráðherra flokksins sem láta af embætti, að nýta sér ekki biðlaunarétt.

Í ályktun stjórnar Samfylkingarinnar Rangárvalla- og V-Skaftafellssýslu segir að flestir íslenskir launþegar hafi þriggja mánaða uppsagnarfrest hjá vinnuveitendum sínum. Það eigi því við um þorra 12.800 manna og kvenna sem nú eru orðin atvinnulaus og einnig þá sem næstu mánuði muni missa atvinnu sína.
 
„Undanfarna daga hafa fjölmiðlar greint frá biðlaunakjörum nokkurra háttsettra embættismanna íslenska ríkisins sem eru verulega frábrugðin kjörum hins almenna launþega þegar til starfsloka kemur,“ segir í ályktuninni.

Þá segir að vegna efnahagsástandsins og með tilliti til jafnréttissjónarmið séu þeir embættismenn, sem kunna að missa vinnu sína og hafa biðlaunarétt umfram þrjá mánuði, hvattir til að nýta einungis þrjá mánuði og þeir sem betur mega sín eru hvattir til að afsala sér öllum biðlaunarétti.

„Til að gefa gott fordæmi hvetjum við sérstaklega ráðherra Samfylkingarinnar sem nú láta af embætti, að nýta sér ekki biðlaunaréttinn. Til að tryggja jafnrétti hjá öllum launþegum skorum við á Alþingi að setja lög sem taki á þessu jafnréttismáli og verði þau hluti af neyðarlögunum, “ segir í ályktuninni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert