Sjúkrahúsið kostar 82 milljarða

Líkan af nýja sjúkrahúsinu
Líkan af nýja sjúkrahúsinu

Gögn fyrir hönnunarsamkeppni um nýtt háskólasjúkrahús eru nú tilbúin og er áætlað að samkeppnin, með dómnefndarstörfum og samningum, taki um 7-8 mánuði. Er áætlaður kostnaður við nýtt sjúkrahús samtals um 82 milljarðar króna. Þar af byggingakostnaður 70 milljarðar og húsgögn og tæki 12 milljarðar.

Hönnun nýja spítalans gæti hafist af fullum krafti í september næstkomandi ef heimild verður veitt fljótlega fyrir samkeppninni. Fjármunir til hönnunarvinnu á árinu 2009 liggja fyrir samkvæmt fjárlögum. Allt að 100 hönnuðir fá vinnu við lokahönnun spítalans og þörf er á 500 manns í viðbót þegar framkvæmdir hefjast.

Nýtt háskólasjúkrahús er verkefnisheiti fyrir nýbyggingar Landspítala, heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands og Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Brýn þörf er á að hrinda verkefninu í framkvæmd því núverandi húsnæði Landspítalans er gamalt og stenst ekki lengur þær kröfur sem gerðar eru, að því er segir á vef sjúkrahússins.

Á nýja spítalanum verða álíka mörg sjúkrarúm og eru nú við Hringbraut og í Fossvogi, eða um 430 rúm, auk fæðingardeildar, barnaspítala og geðdeildar í eldra húsnæði.

Verkefnið er unnið samkvæmt lögum um opinberar framkvæmdir og er áætlaður kostnaður við nýtt sjúkrahús samtals um 82 milljarðar króna, á verðlagi í febrúar 2009, samkvæmt kostnaðarmati ráðgjafarteymisins sem annaðist forhönnun háskólasjúkrahússins.

Byggingakostnaður við húsnæði heilbrigðisvísindasviðs Háskólans - þar sem verða til húsa læknisfræði, hjúkrunarfræði, sjúkraþjálfun, lyfjafræði, sálfræði, tannlækningar, matvæla- og næringarfræði, geislafræði og lífeindafræði - og húsnæði Keldna er um 12 milljarðar króna.

Kostnaður við húsgögn og tæki heilbrigðisvísindasviðs og Keldna er áætlaður 5 milljarðar króna og áætlað er að 1.500 stæða bílahús kosti 5 milljarða króna.

Áætlað er að liðlega helmingur byggingakostnaðar séu vinnulaun við byggingarframkvæmdina og hönnun.

„Útreikningar sýna að árlegur sparnaður í rekstri við að flytja starfsemi spítalans í nýtt húsnæði verði 3-5 milljarðar króna. Sparnaðurinn næst fyrst og fremst með sameiningu tveggja áþekkra sjúkrahúsa (Hringbraut og Fossvogi), nýju húsnæði sem hentar starfseminni, færri sýkingum, aukinni áherslu á dag- og göngudeildarstafsemi og öflugu sjúklingahóteli.

Þá er ótalinn sparnaður vegna nýrra upplýsingakerfa en erlendis sýnir reynslan að sparnaður er á bilinu 8-12%, bara við það eitt að fá nýtt húsnæði fyrir starfsemina, auk þess sem á Landspítala er einnig verið að sameina tvo spítala. Þá losnar húsnæði í Fossvogi sem má selja upp í byggingarkostnað eða nýta fyrir aðra heilbrigðisþjónustu," að því er segir á vef sjúkrahússins.

Tæpt ár er nú frá því að lokið var við frumathugun, sem byggir á ítarlegri þarfagreiningu, frumteikningum, tæknilýsingu og herbergjalista, og er nú beðið eftir heimild til að hefja frekari áætlanagerð og útlitshönnun spítalans.

Ákveðið er að íslenska verði tungumál samkeppninnar og einnig er gerð krafa um að það hönnuðateymi sem ber sigur úr bítum í samkeppninni verði með verkefnaskrifstofu í námunda við Landspítalann. Áformað er að hefjast handa strax að lokinni samkeppninni við lokahönnun spítalans og er áætlað að allt að 100 hönnuðir muni fá vinnu við það verkefni.

Í áætlunum fyrir verkefnið hefur verið gert ráð fyrir því að byggingaframkvæmdir gætu hafist rúmlega einu áru eftir að hönnunarsamkeppninni lýkur. Það væri hægt að stytta þann tíma með því að flýta útboði vegna undirbúnings lóðar og jarðvinnu og gætu framkvæmdir þá jafnvel hafist  upp úr miðju ári 2010.

Miðað við núverandi verkáætlun á byggingu sjúkrahússins að vera lokið árið 2017. Mannaflaþörf vegna framkvæmda er áætluð um 500 manns, fyrir utan þá sem vinna að hönnun spítalans. Hægt væri að hraða verkinu nokkuð með breyttri áfangaskiptingu og yrði mannaflaþörfin þá meiri, eða sem nemur styttingu verktímans. 

Sjá nánar á vef sjúkrahússins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert