Fréttaskýring: Dýr kosningabarátta er ekki í spilunum

mbl.is/Eyþór

Kjarni lýðræðisins felst í kosningum. En lýðræðið kostar og kosningarnar eru þar engin undantekning. Í vor verða fyrstu óreglubundnu kosningar í þrjátíu ár. Flokkarnir hafa því venjulega haft fjögur ár til að jafna sig eftir slaginn og eru góðu vanir. Nú er hins vegar annað uppi á teningnum.

Sjálfstæðisflokkur og Framsókn eru lítið fyrir opinberanir á fjármálum sínum, enda þeir flokkar sem oftast eru orðaðir við „digra sjóði“ hvað svo sem er til í því. Samfylking, Frjálslyndir og Vinstri grænir birta ársreikninga sína á vefnum. Reyndar má geta þess að samkvæmt lögum frá 2006 og reglugerð frá 2007 eiga flokkarnir að skila ársreikningum sínum til Ríkisendurskoðunar, sem á að birta útdrátt úr þeim opinberlega. Það hefur ekki verið gert, enda tveir flokkar enn engu búnir að skila. Framsókn er þar á meðal.

Árið 2007 var gengið til kosninga. Það ár var tap á rekstri Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um 36 milljónir króna og skuldir umfram eignir um 14,5 milljónir. Stór munur er á afkomu Samfylkingarinnar á kosningaárum og öðrum árum. 2007 og 2003 var tapið tæpar 59 milljónir í hvert sinn, en önnur ár frá aldamótum hefur afkoman verið jákvæð um á bilinu 27-64 milljónir. Funda- og kynningarkostnaður Samfylkingar á fyrrnefndum kosningaárum var 100 milljónir og 136 milljónir króna. Tap Frjálslynda flokksins var um 28 milljónir króna árið 2007 og hreinar skuldir í kringum 2 milljónir í lok árs. Þessar upplýsingar eru ekki aðgengilegar um Framsókn og Sjálfstæðisflokk.

Stakkur eftir vexti

Drífa Snædal, framkvæmdastjóri VG, vill ekki tjá sig um núverandi fjárhagsstöðu flokksins, en segir hann sníða sér stakk eftir vexti. „Það er hvorki stemning fyrir langri né dýrri kosningabaráttu. Fjárhagsstaðan hefur verið misjöfn í gegnum tíðina. Við erum flokkur sem byrjaði með tvær hendur tómar árið 1999 og erum vön því að reka kosningabaráttuna á framlögum einstaklinga og fyrirtækja. Það er ekki að vænta stórra fjárútláta úr þeirri áttinni í ár.“ Magnús Reynir Guðmundsson, framkvæmdastjóri Frjálslyndra segir flokkinn skuldlausan sem stendur og rétt búinn að ná því marki eftir síðustu kosningar. „Það er algjörlega ljóst að hún verður með allt öðrum hætti en fyrir tveimur árum, í það minnsta hjá okkur. Þá áttum við fasteign sem við seldum og söfnuðum skuldum.“ Hann grípur til sama orðtaks og Drífa, stakkurinn verður sniðinn eftir vexti.

Annað hljóð hjá Framsókn

Sigfús Ingi Sigfússon, framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins, segir ekki margt um fjárhagsstöðu flokksins. Flokkurinn vill hins vegar kosningar sem fyrst. Sigfús segir kosningabaráttuna hafna að einhverju marki, fyrst forsætisráðherra hafi nefnt dagsetningu. Umfang baráttunnar muni hins vegar ráðast jafnóðum af því hversu vel gangi að kynna málefni hans fyrir fólki. Nú finni þeir fyrir miklum meðbyr. Líklegt má telja að Framsókn hyggi á stórsókn.

Hvorki náðist í Andra Óttarsson, framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokks, né Skúla Helgason, framkvæmdastjóra Samfylkingar, vegna þessarar umfjöllunar.

Flokkar á spenanum

Margvíslegar hindranir eru gegn nýliðun meðal þingmanna. 5% reglan, um kjörfylgi á landsvísu, er þar þekktust. Fleira kemur samt til. Stjórnmálaflokkar sem eiga sæti á Alþingi hafa „ríkisvætt“ sjálfa sig með því að úthluta sér árlegum framlögum úr ríkissjóði, miðað við þingstyrk. Heildarframlög á fjárlögum þessa og síðasta árs til þeirra voru 371,5 milljónir króna, en lítið eitt lægri árið 2007.

Kosningabarátta nýrra framboða er fjármögnuð með frjálsum framlögum, sem verða mjög af skornum skammti núna. Þegar eru komin fram tvö ný framboð sem hafa líkast til ekki úr miklu að moða.

Forkólfar þeirra hljóta að bíða þess í ofvæni hvort stóru gömlu flokkarnir ætli í dýra og „sjálfhverfa“ kosningabaráttu, eins og varaformaður Sjálfstæðisflokksins komst að orði.

mbl.is/Brynjar Gauti
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert