Gunnar Bragi fram gegn Guðmundi

Gunnar Bragi Sveinsson.
Gunnar Bragi Sveinsson.

Gunnar Bragi Sveinsson hefur sent frá sér yfirlýsingu þess efnis að hann hyggi á framboð til fyrsta sætis á lista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi. Þar með er komið mótframboð gegn Guðmundi Steingrímssyni sem áður hafði tilkynnt að hann stefndi á fyrsta sætið í komandi Alþingiskosningum. Gunnar situr nú sem oddviti Framsóknarflokks í sveitarstjórn Skagafjarðar.


„Framsóknarflokkurinn stendur á tímamótum þar sem hann hefur orðið við kröfu flokksmanna og þjóðarinnar um endurnýjun. Mikilvægt er að til starfa með nýrri forystu veljist aðilar er þekkja kröfur og þarfir umbjóðenda sinna og eru trúir grunngildum og stefnu flokksins,“ segir í tilkynningu Gunnars.

Ég hef, frá því að ég hafði aldur til, tekið virkan þátt í starfi Framsóknarflokksins. Í þeim störfum hef ég lagt áherslu á grunngildi og rætur flokksins sem hafa í gegnum tíðina gert hann að einum áhrifamesta stjórnmálaflokki landsins. Eftir þessu gildum er nú kallað. Ég vil leggja mitt að mörkum við að vinna að framgangi þessara gilda.

Ég hef því ákveðið að bjóða mig fam til að leiða lista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi í næstu alþingiskosningum.  

Í Norðvesturkjördæmi er mikið af hæfu fólki sem unnið hefur af heilindum árum sama að uppbyggingu Framsóknarflokksins og framgangi hans. Ég hef starfað með mörgu af þessu góða fólki og tel mig þekkja vel til flokksins og grasrótar hans. Ég fagna því fólki úr grasrótinni sem hyggst bjóða sig fram og hlakka til samkeppni og samstarfs við það og vona að flokksmenn virði það starf sem allt þetta fólk hefur innt af hendi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert