Á frekar von á því að mál klárist á morgun

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Ómar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði í samtali við blaðamanna mbl.is að honum fyndist líkleg að myndun nýrrar ríkisstjórnar Vinstri grænna og Samfylkingarinnar, varin falli af Framsókn, verði mynduð í dag eða á morgun. 

„Það er möguleiki á því að stjórnin verði mynduð í dag en ég á frekar von á því að málin klárist á morgun,“ sagði Sigmundur Davíð. Hann sagði Framsóknarflokkinn alltaf hafa sett það sem skilyrði fyrir því að flokkurinn verji nýja stjórn falli að trúverðugar leiðir væru skýrar um hvernig ætti að koma heimilum og fyrirtækjum til bjargar. Stjórnin ætti öðru fremur að hafa umboð til þessara afmörkuðu markmiða. Hann sagði framsóknarmenn ekki hafa verið að tefja ríkisstjórnarmyndunina heldur hefði einungis verið að ræða málin á þeim forsendum sem lagt hafi verið upp með í upphafi. Sigmundur Davíð sagði enn fremur að hugmyndir hefðu komið fram um að Framsóknarflokkurinn myndi gegna vegameira hlutverki en einungis að verja stjórnina falli. Hann myndi veita frumvörpum stjórnarflokkana brautargengi og á þeim forsendum þyrfti flokkurinn því að hafa meiri aðkomu að sáttmálanum sem stjórnarsamstarfið byggði á.  Hann sagði þessar hugmyndir ekki hafa komið frá Framsóknarflokknum heldur VG og Samfylkingunni.

Þingflokkar Vinstri grænna og Samfylkingarinnar hittust á fundum klukkan tíu og ræddu stöðuna í stjórnarmyndunarviðræðum flokkanna. Framsóknarmenn voru ekki sáttir við drögin að stjórnarsáttmála sem þingflokkurinn fékk inn á sitt borð hálf tvö í gær, og töldu hann ekki nægilega skýran.

Eins og fram kemur í Morgunblaðinu í dag varð ósætti framsóknarmanna í gær til þess að myndun ríkisstjórnarinnar var frestað. Líklegt er að umræður í flokkunum öllum, sem eiga aðild að stjórnarmyndunarviðræðum, muni fara fram í allan dag þar sem reynt verður að ná niðurstöðu í þeim ágreiningsmálum sem náðist ekki að leysa úr í gær. Krafa framsóknarmanna hefur verið sú að ný ríkisstjórn muni aðeins hafa umboð til þess að ráðast í skýrlega afmörkuð verk, sem miða að því að koma heimilum og fyrirtækjum til bjargar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert