Ingibjörg komin á Bessastaði

mbl.is/Ómar

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar og fráfarandi utanríkisráðherra, gekk á fund Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands á Bessastöðum nú í hádeginu.

Þar gerir hún forsetanum grein fyrir niðurstöðum viðræðna sem fram hafa farið um stjórnarmyndun síðustu daga. Jafnframt mun hún skila af sér umboði til stjórnarmyndunar en Jóhanna Sigurðardóttir gengur á fund forseta klukkan 13 og fær formlegt umboð til stjórnarmyndunar.

Sex dagar eru síðan Geir H. Haarde forsætisráðherra, greindi Alþingi frá því að upp úr samstarfi við Samfylkingu hefði slitnað.

Allt síðan þá hafa fulltrúar Samfylkingar og VG unnið að ríkisstjórnarmyndun. Á föstudag virtist sem snurða hefði hlaupið á þráðinn en að lokinni  langri fundarsetu í gær með formönnum VG og Samfylkingar og eigin þingflokki tilkynnti Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, að flokkurinn hefði samþykkt að verja nýja minnihlutastjórn vantrausti fram að kosningum sem verða laugardaginn 25. apríl.

Ríkisstjórn Samfylkingar og VG hefur samtals 34 þingmenn og að auki stuðning sjö þingmanna Framsóknarflokksins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert