Tíu ráðherrar í nýrri stjórn

Steingrímur J. Sigfússon, verðandi fjármálaráðherra og Jóhanna Sigurðardóttir, verðandi forsætisráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon, verðandi fjármálaráðherra og Jóhanna Sigurðardóttir, verðandi forsætisráðherra. mbl.is/Ómar

Tíu ráðherrar verða í nýrri ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs. Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG kynnir nú ráðherra lista sinn á fundi þingflokks VG. Þingflokkur Samfylkingar kemur saman klukkan 14:30 en að honum loknum er flokksstjórnarfundur Samfylkingar boðaður.

Ný ríkisstjórn verður formlega kynnt klukkan 16 á Hótel Borg.

Ríkisráðsfundur með fráfarandi ríkisstjórn Geirs H. Haarde er boðaður klukkan 17 en klukkustund síðar verður ríkisráðsfundur með nýrri ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, þar sem hún kynnir forseta ráðuneyti sitt.

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur markar tímamót en aldrei fyrr í sögu íslenska lýðveldisins hefur kona sest í stól forsætisráðherra.

Samkvæmt heimildum mbl.is tekur Jóhanna auk forsætisráðuneytisins, að sér ráðuneyti félags- og tryggingamála.

Steingrímur J. Sigfússon sest í fjármálaráðuneytið. Þá verður Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra, Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra og Kolbrún Halldórsdóttir umhverfisráðherra.

Samkvæmt heimildum mbl.is verður Björg Thorarensen ekki dómsmálaráðherra. Til hennar hafði verið leitað en hún sest ekki í ráðherrastól samkvæmt heimildum mbl.is.

Þá hefur verið upplýst að Gylfi Magnússon, dósent við HÍ tekur við viðskiptaráðuneytinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert