Hvorki valdboð né komugjöld

Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra segir að árangur í heilbrigðismálum náist ekki með flausturslegum vinnubrögðum og valdboði að ofan.  Við blasi geigvænlegur niðurskurður upp á tæpa sjö milljarða markmið fjárlaga eigi að nást. Dýrustu skipulagsbreytingar sem ráðist sé í séu þær sem séu vanhugsaðar og gerðar í ósætti eins og allt of mörg dæmi séu um að undanförnu

Fyrsta verk heilbrigðisráðherrans var að fella niður komugjöld á spítala en þau gefa um sjötíu áttatíu milljónir í ríkiskassann. Ekki liggur fyrir hvar skorið verður niður í staðinn en Ögmundur segir ekki um háar upphæðir að tefla fyrir ríkissjóð en heilbrigðiskerfið velti á annað hundrað milljörðum. Þessar upphæðir geti hinsvegar skipt sköpum fyrir tekjulítið fólk og með komugjöldum hafi verið brotið blað í heilbrigðissögu þjóðarinnar.

Hann ætlar ennfremur að ræða við bæjarstjórann í Hafnarfirði og þá sem tengjast starfsemi  Sánkti Jósepsspítala en fyrirhugaðar breytingar eru allar í endurskoðun. Enn kemur til greina að flytja hluta heilbrigðisþjónustunnar til sveitarfélaga sem það kjósa. Ögmundur segir að allt sé nú til skoðunar og endurmats en ekki sé hægt að alhæfa um þær breytingar sem fyrirrennari hans í embætti hafi kynnt á síðustu vikum. Þar hafi líka verið að finna góðar breytingar sem fullkomin sátt hafi verið um.  Allt verði þetta skoðað á næstu dögum og vikum.

 
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert