Yfirlýsingar jaðra við einelti

Seðlabanki Íslands
Seðlabanki Íslands mbl.is/Golli

„Yfirlýsingar Jóhönnu [Sigurðardóttur forsætisráðherra, innsk. blm.] um störf bankastjórnarinnar eru pólitískar og þær jaðra, eins og sumir segja, við að vera einelti,“ segir Halldór Blöndal, formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra kynnir í dag frumvarp á ríkisstjórnarfundi um breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands sem felur í sér að einn bankastjóri verður yfirmaður bankans. Til stendur að auglýsa stöðuna. Jóhanna sendi stjórn bankans, Ingimundi Friðrikssyni, Eiríki Guðnasyni og Davíð Oddssyni stjórnarformanni, bréf í gær þar sem hún óskaði eftir því að stjórnin myndi hætta störfum sem fyrst til þess að mögulegt væri að endurvekja traust á bankanum og á stjórnun efnahagsmála í landinu. Frumvarp Jóhönnu felur einnig í sér breytingu á því hvernig skipað verður í bankaráð seðlabankans. Halldór segir þær „pólitísku yfirlýsingar“ sem fallið hafa um stjórn seðlabankans stafa af því að Davíð hafi verið leiðtogi sjálfstæðismanna í á annan áratug. „Það hefur hins vegar lítið farið fyrir efnislegri gagnrýni á stjórnina,“ segir Halldór.

Eiríkur Guðnason staðfesti í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi að stjórnin hefði fengið bréf frá forsætisráðherra en vildi ekki tjá sig um það.


Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert