Kaka ársins 2009

Stefán Hrafn Sigfússon, bakari hjá Mosfellsbakaríi, á heiðurinn af köku ársins 2009. Landssamband bakarameistara (LABAK) stendur bakvið þessa árlegu keppni sem fór fram í Hótel- og matvælaskólanum í Kópavogi. Fjöldi þátttakenda hefur aldrei verið meiri, en kaka Stefáns þótti skara fram úr þeim 18 kökum sem sendar voru til keppni, samkvæmt tilkynningu.

„Til að hljóta titilinn kaka ársins þarf verðlaunakakan að sameina þá kosti að vera bragðgóð, falleg og líkleg til að falla sem flestum í geð. Að þessu sinni var keppnin haldin í samstarfi við Nóa-Síríus og var eina skilyrðið að kakan innhéldi Nóa kropp.

Sigurkakan er samsett úr súkkulaði-möndlubotnum og súkkulaðimús. Hún er með Nóakroppi og bláberjum á milli laga og hjúpuð dökku súkkulaði."

Sala á kökunni hefst um næstu helgi í bakaríum félagsmanna LABAK og verður til sölu út árið.

Albert Eiríksson, þjónustufulltrúi Listaháskólans og blaðamaður á Gestgjafanum var einn dómara. Hann sagði valið hafa verið erfitt þar sem margar af kökunum hafi verið bæði bragðgóðar, fallegar og vel skreyttar. Auk Alberts voru í dómnefnd þau Pálmi Jónsson, matreiðslumeistari hjá Nóa Síríus og Sigríður Guðlaugsdóttir, verkefnastjóri miðlunar hjá Samtökum iðnaðarins, að því er segir í tilkynningu.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert