Mótmælt eftir stjórnarskiptin

Hörður Torfason, helsti talsmaður Radda fólksins
Hörður Torfason, helsti talsmaður Radda fólksins Ómar Óskarsson

Talsmenn Radda fólksins áttu fund með forseta Íslands föstudaginn 30. janúar og ræddu hugmyndir um nýja stjórnskipan og utanþingsstjórn, nauðsyn á þátttöku almennings í umræðum um nýtt lýðveldi sem og árangurinn af útifundum undanfarna mánuði.

„Segja má að forseti og þing hafi að hluta til tekið undir sjónarmið Radda fólksins með skipan óháðra sérfræðinga í stöður viðskipta- og dómsmálaráðherra. Búsáhaldabyltingin hefur því náð að hreyfa við gamla flokksræðinu, en betur má ef duga skal. Nú er nauðsynlegt að taka upp virkt lýðræði og losa þjóðina við útsendara flokkseigenda í fjármálafyrirtækjum, stjórnsýslunni, háskólum og fjölmiðlum,“ segir í fréttatilkynningu frá röddum fólksins.

„Það er ekki að ástæðulausu að áhrifum útifundanna hefur verið líkt við Múrbrjót sem með endurteknum þunga mylur niður þann múr þagnar og spillingar sem einkennt hefur stjórnarhætti hérlendis til margra ára. Og áfram skal haldið,“ segir þar einnig. Eins og sjá má er engan bilbug að finna á mótmælendum, enda verður næsti mótmælafundur á Austurvelli klukkan þrjú á laugardaginn. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert