Brennisteinsvetnismengun við heilsuverndarmörk

Útblástur Frá Hellisheiðarvirkjun á köldum vetrardegi.
Útblástur Frá Hellisheiðarvirkjun á köldum vetrardegi. mbl.is/Júlíus

Sólarhringsmeðaltal brennisteinsvetnis mældist á mánudag við Álalind í Kópavogi jafn hátt og heilsuverndarviðmið  Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar eða 150 µg/m3. Sólahringsmeðaltal brennisteinsvetnis hefur aldrei fyrr mælst við þessi mörk í byggð á höfuðborgarsvæðinu.

Umhverfisstofnun segir, að síðustu daga hafi hægar austlægar áttir verið ríkjandi á höfuðborgarsvæðinu. Því hefur fylgt viðvarandi lykt af brennisteinsvetni og á mánudag var metdagur  á loftgæðamælistöðvunum við Grensásveg í Reykjavík og Álalind í Kópavogi.

Stofnunin segir, að ekki þurfi að óttast bráðaáhrif af þessum styrk en langtímaáhrif brennisteinsvetnis í lágum styrk á heilsu fólks séu ekki vel rannsökuð.

Stofnunin segir, að þegar brennisteinsvetni mælist í þessum styrk sé mögulegt að fólk, sem býr nær upptökum mengunarinnar og er viðkvæmt fyrir brennisteinsvetni, geti fundið fyrir höfuðverk og ógleði. Nær virkjunarsvæðinu megi búast við meiri styrk sem þá geti haft áhrif á heilsu manna.

Unnið er að uppsetningu fleiri mælistöðva sem mæla brennisteinsvetni, meðal annars á virkjanasvæðinu, Norðlingaholti og Hveragerði.  Einnig er hafin á Umhverfisstofnun vinna við að setja umhverfismörk fyrir brennisteinsvetni en fram til þessa hafa einungis vinnuverndarmörk verið til staðar í íslenskum reglugerðum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert