Finnar lána Íslendingum

Reuters

Finnsk stjórnvöld tilkynntu í dag að þau myndu veita Íslandi 350 milljóna evra gjaldeyrislán, jafnvirði 51 milljarðs króna, í tengslum við samkomulag Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Finnar ætla einnig að lána Lettum sömu upphæð. Þetta var ákveðið þegar gerðar voru tillögur um fjáraukalög fyrir yfirstandandi ár, að sögn blaðsins Helsingin Sanomat.

Að sögn blaðsins er lánið hluti af samtals 2,5 milljarða evra láni, sem Norðurlöndin fjögur, Svíþjóð, Finnland, Danmörk og Noregur samþykktu að veita Íslandi og kæmi til viðbótar láni frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Svíar hafa þegar staðfest að þeir muni lána Íslandi allt að 6,5 milljarða sænskra króna, jafnvirði um 90 milljarða íslenskra króna.

Norðurlöndin, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, Evrópusambandið og Alþjóðabankinn hafa einnig samþykkt að veita Lettlandi 1,8 milljarða evra gjaldeyrislán vegna efnahagserfiðleika þar í landi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert