Kaupfélag Héraðsbúa í þrot

mbl.is/Austurglugginn

Rekstur Kaupfélags Héraðsbúa er kominn í þrot og blasir lokun við. Samkaup hefur lýst yfir vilja til að kaupa verslunarrekstur kaupfélagsins, samkvæmt heimildum Austurgluggans. Þá mun N1vilja kaupa hraðbúð og söluskála kaupfélagsins á Egilsstöðum. Skuldir kaupfélagsins nema hátt í tveimur milljörðum króna.

Í Austurglugganum segir að kaup Samkaupa á verslunarrekstri séu ákveðnum skilyrðum háð. Það hvort kaupfélagið kemst hjá greiðslustöðvun eða jafnvel gjaldþroti stendur og fellur með því að gengið verði frá þessum samningum.

Jón Júlíusson, varaformaður stjórnar KHB segir í samtali við Austurgluggann að staðan sé mjög sár.

„Við vonum að samningar gangi eftir og þá er mikið unnið. Auðvitað er vont að missa forræðið og stjórn yfir verslunarrekstrinum á Austurlandi en mikilvægt að störfin haldist.“

Þingað var með starfsfólki KHB á Egilsstöðum í gær og því gerð grein fyrir stöðu fyrirtækisins. Við aðra starfsmenn hafði ekki verið rætt að sögn Austurgluggans.

Kaupfélag Héraðsbúa var stofnað fyrir hundrað árum og starfa vel á annað hundruð manns hjá því. KHB er umfangsmesta verslunarfyrirtæki á Austurlandi. Það starfrækir sjö dagvöruverslanir, tvær hraðbúðir og söluskála. Félagið er með starfsemi í átta byggðarlögum á Austurlandi og um 150 manns starfa hjá KHB að staðaldri.

Sjá nánari umfjöllun Austurgluggans

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert