Tilnefnd til Eyrarrósarinnar

Rokkhátíð alþýðunnar, Aldrei fór ég suður, fékk Eyrarrósina í fyrra …
Rokkhátíð alþýðunnar, Aldrei fór ég suður, fékk Eyrarrósina í fyrra en hátíðin er runnin undan rifjum feðganna Muggs og Mugison, Guðmundar Kristjánssonar og Arnar Elíasar Guðmundssonar. mbl.is/Halldór Sveinbjörnsson

Eyrbyggja, sögumiðstöð Grundarfirði, Skaftfell, miðstöð myndlistar á Austurlandi og Landnámssetur Íslands, Borgarnesi eru öll tilnefnd til Eyrarrósarinnar í ár. Eyrarrósin er sérstök viðurkenning fyrir framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni og verður hún afhent á Bessastöðum þriðjudaginn 10. febrúar.

Eyrarrósin er nú afhent í fimmta sinn. Eitt verkefnanna þriggja hlýtur viðurkenninguna, fjárstyrk að upphæð 1,5 milljónir króna og verðlaunagrip eftir Steinunni Þórarinsdóttur til eignar. Hin tvö verkefnin hljóta 200 þúsund króna framlag. Öll verkefnin hljóta að auki flugferðir frá Flugfélagi Íslands.

Verðlaunin veitir Dorrit Moussaieff forsetafrú, sem jafnframt er verndari Eyrarrósarinnar.

Fyrstu Eyrarrósina, sem afhent var árið 2005, hlaut Þjóðlagahátíðin á Siglufirði. Árið 2006 féll hún í skaut LungA, Listahátíðar ungs fólks á Austurlandi. Eyrarrósina 2007 hlaut Strandagaldur á Hólmavík og í janúar á síðasta ári kom hún í hlut hinnar ísfirsku Rokkhátíðar alþýðunnar; Aldrei fór ég suður.

Við afhendinguna á þriðjudag verður tilkynnt um áframhaldandi samstarf og undirritun samnings aðstandenda Eyrarrósarinnar; Flugfélags Íslands, Byggðastofnunar og Listahátíðar í Reykjavík.

Markmiðið með Eyrarrósinni er að efla fagmennsku og færni við skipulagningu menningarlífs og listviðburða á landsbyggðinni, auka kynningarmöguleika einstakra sveitarfélaga og landshluta og skapa sóknarfæri á sviði menningartengdrar ferðaþjónustu.

Eyrarrósin er veitt einu afburða menningarverkefni á starfssvæði Byggðastofnunar. Auglýst var eftir umsóknum í fjölmiðlum og voru umsækjendur m.a. ýmis tímabundin verkefni, menningarhátíðir, stofnanir og söfn. Verkefnisstjórn, skipuð forstjóra og stjórnarformanni Byggðastofnunar og stjórnanda og framkvæmdastjóra Listahátíðar í Reykjavík, tilnefna og velja verðlaunahafa.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert