Sturla og Herdís hætta

Sturla Böðvarsson
Sturla Böðvarsson mbl.is/RAX

Sturla Böðvarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, ætlar ekki að gefa kost á sér í framboð í næstu alþingiskosningum. Þetta tilkynnti Sturla á fundi kjördæmisráðs sjálfstæðisfélaganna í Norðvesturkjördæmi í dag.

Herdís Þórðardóttir gefur heldur ekki kost á sér en samþykkt var á fundinum að halda prófkjör á vegum flokksins í kjördæminu. Prófkjörið verður hálflokað, sem þýðir að þeir sem skrá sig í flokkinn fyrir 21. febrúar nk. mega gefa kost á sér, en prófkjörið fer að öllum líkindum fram laugardaginn 21. mars nk.  Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, greindi frá því á fundi kjördæmisráðs sjálfstæðisfélaganna í Norðvesturkjördæmi að hann hygðist gefa kost á sér í framboð.

Sturla sagði ákvörðunina í samræmi við þá sem hann tók fyrir tveimur árum um að kjörtímabilið yrði hans síðasta, kjörtímabil sem stendur skemur en hann gerði ráð fyrir, eins og hann orðaði það.

Sturla kvaðst hafa gengið í gegnum margar kosningar og notið þeirra forréttinda að vinna með svo öflugu fólki að aldrei hefðu tapast kosningar innan flokksins eða í kjördæminu.

„Það var ekki fyrr en ég stóð frammi fyrir mótframboði um embætti forseta Alþingis sem ég beið lægri hlut í kosningum. Þar var kosningastjóri í raun og veru enginn annar en bóndinn á Bessastöðum,“ segir Sturla.

Hann sagði kosninguna hafa af hálfu sjálfstæðismanna verið mælingu á heilindum og drengskap framsóknarmanna og afstöðu þeirra sem höfðu mært hann og störf hans.

„Bessastaðabandalagið, eins og ég kalla stuðningsmenn minnihlutastjórnarinnar, stóðst ekki prófið.“ Sturla sakaði forseta Íslands, Ólaf Ragnar Grímsson, um afskipti af stjórnarmynduninni og sagði þau dæmalaus.

„Forsetinn hikaði ekki við að hafna stjórn allra flokka, skáka Sjálfstæðisflokknum burt og setja til valda Vinstri græna sem höfðu bæði leynt og ljóst staðið fyrir grjótkastinu og innrásinni í Alþingishúsið og í raun staðið fyrir valdatöku þegar Samfylkingin missti kjarkinn eftir árásina á Alþingishúsið og aðförina að fundi Samfylkingarinnar í Leikhúskjallaranum,“ sagði Sturla og bætti því við að það mætti með sanni segja að minnihlutastjórn Jóhönnu hefði komist til valda í skjóli ofbeldis.

„Það var sláandi fyrir okkur sem vorum í þinghúsinu þegar sem mest gekk á að verða þess áskynja þegar ofbeldisfólkið sem réðst á Alþingishúsið fór eftir að Vinstri grænir fengu sitt fram og höfðu sest í ráðherrastóla.“

Drepur íslenskan landbúnað

Sturla lagði áherslu á að frambjóð endur Sjálfstæðisflokksins yrðu að tala skýrt í næstu kosningum. „Við eigum að hafna öllum hugmyndum um óheftan innflutning landbúnaðarafurða.“ Hann sagði slíkan innflutning myndu drepa íslenskan landbúnað á nokkrum misserum og kalla á meiri gjaldeyri til innflutnings en við hefðum efni á.

„Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins verða að tala skýrt gegn samningum við ESB sem gefa færi á að nýtingu fiskimiðanna og annarra auðlinda okkar verði stjórnað af komissörum á vegum Evrópusambandsins í Brussel.“

Í samtali við Morgunblaðið sagðist Herdís ekki vilja gefa upp ástæðuna fyrir því hvers vegna hún ákvað að gefa ekki kost á sér til endurkjörs.

Þórður Guðjónsson knattspyrnumaður, bróðursonur Herdísar, hefur tilkynnt að hann muni gefa kost á sér í eitt af þremur efstu sætum á lista Sjálfstæðsflokksins í kjördæminu fyrir komandi alþingiskosningar.

Af öðrum nöfnum má nefna að Bergþór Ólafsson, fyrrverandi aðstoðarmaður Sturlu Böðvarssonar þegar hann var samgönguráðherra, Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, sveitarstjóri Tálknafjarðarhrepps, Eydís Aðalbjörnsdóttir, sem situr í bæjarstjórn Akraneskaupstaðar, og Karvel Karvelsson.

Einar Kristinn Guðfinnsson
Einar Kristinn Guðfinnsson
Herdís Þórðardóttir
Herdís Þórðardóttir mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert