Ákvörðun Steingríms í vikulok?

Steingrímur J. Sigfússon
Steingrímur J. Sigfússon Mbl.is/ Kristinn

Í lok vikunnar mun hylla undir ákvörðun Steingríms J. Sigfússonar sjávarútvegsráðherra, um það hvort hvalveiðum verði áfram haldið við Ísland og þá í hvaða magni. Þetta kom fram í ræðu hans í utandagskrárumræðum á Alþingi um hvalveiðar í dag.

Sagði Steingrímur að sem stendur sé verið að láta vinna óháð lögfræðilegt álit á stöðu málsins, verið sé að draga saman gögn frá ráðuneytum utanríkis-, iðnaðar- og umhverfismála, sem muni skila inn gögnum til hans um málið. Þá muni hann funda með fulltrúum ferðaþjónustunnar, hvalaskoðunarfyrirtækja og hvalveiðimönnum í þessari viku. Hann sé búinn að funda með fulltrúum LÍÚ og mun hitta smábátasjómenn í vikunni.

Í ræðunni gagnrýndi hann stjórnsýslu Einars K. Guðfinnsonar, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, í málinu harðlega. Málshefjandi umræðunnar, Jón Gunnarsson þingmaður Sjálfstæðisflokks, hafði hins vegar rakið feril málsins í framsöguræðu sinni. Sagði hann bakgrunn að ákvörðun Einars ná til 1999, þegar ályktun Alþingis var samþykkt um hvalveiðar skuli stundaðar við Ísland.

Ísland gekk í Alþjóðahvalveiðiráðið árið 2002 og vísindaveiðar hófust árið 2003. Atvinnuveiðar hófust svo árið 2006. Sagði Jón Gunnarsson að rannsóknir á hvalaafurðum hafi leitt í ljós að þær standist allar kröfur sem gerðar eru til heilbrigðis matvæla. Ekki hafi verið forsendur til þess fyrr en nú í vetur, að gefa út veiðileyfi sem gera ráð fyrir útflutningi afurða, þegar magn er annars vegar.

Jón taldi einnig um upp nokkrar skýrslur sem gerðar hafa verið í undirbúningi að hvalveiðum í atvinnuskyni. Nefndi hann skýrslu frá árinu 2004, sem unnin var fyrir samgönguráðuneytið, þar sem niðurstaðan er sú að hvalveiðar hafi ekki skaðað ímynd landsins sem ferðamannalands frá því 2003. Einnig að Ísland hafi hlutfallslega mestri aukningu í ferðamannastraumi árið 2004, ári eftir að vísindaveiðar hófust. Einnig tiltók Jón skýrslu frá árinu 2007, sem unnin var fyrir fyrir ferðaþjónustu og samgönguráðuneyti, með skoðanakönnun meðal 5.000 manns í helstu viðskiptalöndum Íslands. „Niðurstaðan var sú að hvalveiðar hafi ekki haft merkjandi áhrif á ímynd og ferðaþjónustu landsins,“ sagði Jón. Stjórnvöld hafi lagt sig fram um að skoða málið.

Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Frjálslynda flokksins, sagði skýran meirihlutavilja þingsins liggja fyrir í málinu. Þingsályktun Alþingis frá 1999 hafi verið samþykkt með 37 atkvæðum gegn 7. Að auki liggi fyrir að eigi færri en 40 þingmenn úr öllum flokkum styðji hvalveiðar í dag. Steingrímur hafi á sínum tíma greitt atkvæði gegn fyrrnefndri þingsályktun og sé nú að reyna að tefja og eyðileggja málið. „Niðurstaðan er sú að ráðherrann er að ganga gegn þingræðinu, hann er að bjóða þingræðisreglunni byrginn. Ráðherra gegn þinginu. Það er mjög alvarlegt mál,“ sagði þingmaðurinn.

Kolbrún Halldórsdóttir umhverfisráðherra tók einnig til máls og dró í efa að allar forsendur hafi legið fyrir, ákvörðuninni til grundvallar. „Hvað svo sem lá að baki ákvörðuninni, þá var það ekki vandað hagsmunamat.“ Við slíkt mat þurfi að horfa til allra hagsmuna, ekki bara þröngra hagsmuna þeirra sem séu þeirrar skoðunar að það eigi að veiða hvali.

Kristinn H. Gunnarsson sagði Steingrím J. Sigfússon sjávarútvegsráðherra fara vísvitandi …
Kristinn H. Gunnarsson sagði Steingrím J. Sigfússon sjávarútvegsráðherra fara vísvitandi gegn þingræðinu. Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert