Búddahof í Hádegismóa

Tölvugerð mynd af væntanlegu búddahofi við Hádegismóa.
Tölvugerð mynd af væntanlegu búddahofi við Hádegismóa.

Borgarráð samþykkti á fundi sínum í morgun að úthluta lóð til taílenska félagsins, Thai Temple in Iceland Foundation, undir Búddahof. Lóðin er nr. 12 við Hádegismóa og er úthlutað byggingarrétti fyrir hofið og tengdar byggingar u.þ.b. 4.235 fm.

Samkvæmt teikningum eru byggingarnar þrjár, sem fyrirhugað er að reisa, alls um 600 fermetrar, að sögn Vífils Magnússonar arkitekts, sem teiknaði hofið. Þær eru félagsheimili, hofið sjálft og svokölluð stúpa.

Samþykkt var að engin gatnagerðargjöld skuli greidd af búddahofinu eða öðrum byggingum á lóðinni, sem þjóna söfnuði búddista á Íslandi og eru í samræmi við gildandi deiliskipulag. Önnur gjöld vegna lóðarinnar og mannvirkja á henni skulu greidd samkvæmt gjaldskrá á hverjum tíma.

Leigusamningur verður gerður um lóðina þegar lokið hefur verið við að steypa sökkla og plötu undir Búddahofið. Leigutíminn er 50 ár og framlengist sjálfkrafa um önnur 50 ár, nema Reykjavíkurborg hafi með árs fyrirvara tilkynnt lóðarhafa að ekki komi til framlengingar lóðarleigusamningsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert