Íslendingur lenti í vopnuðu ráni

Frá Kaupmannahöfn.
Frá Kaupmannahöfn. mbl.is/Brynjar Gauti

Íslenskur gullsmiður, Jóhannes Ottósson, lenti í vopnuðu ráni í Kaupmannahöfn í gærmorgun, þar sem hann starfar hjá skartgripafyrirtækinu Ole Lundgaard. Beindu grímuklæddir ræningjar, dulbúnir sem bréfberar, byssu að andliti Jóhannesar, þegar hann kom að þeim við peningaskáp fyrirtækisins.

Jóhannes hefur búið í Kaupmannahöfn í 8 - 9 ár og verið hjá Ole Lundgaard í sex, en hann nam þar gullsmíði og hefur starfað hjá fyrirtækinu síðan. Ránið átti sér stað í gærmorgun, um klukkan tuttugu mínútur yfir níu að staðartíma. „Fyrirtækið er þannig að enginn kemst enginn inn nema að vera með raflykil. Bréfberunum er svo hleypt inn til okkar í gegn um ákveðnar dyr. Þessir tveir menn voru klæddir eins og bréfberar og voru með kassa með sér og póst. Í kössunum höfðu þeir grímurnar sínar og byssurnar," sagði Jóhannes í samtali við mbl.is þegar hann var á leið til vinnu í morgun.

Það var einn starfskonan sem hleypti „bréfberunum" inn á skrifstofu á annarri hæð fyrirtækisins en þar sem henni þótt eitthvað grunsamlegt við þá var hún viðbúin á viðvörunarhnappi sem tengdur er öryggisgæslu. „Um leið og mennirnir komu inn settu þeir upp grímurnar og þá ýtti hún á takkann," segir Jóhannes. „Þá fékk hún byssu í andlitið og er sagt að leggjast á gólfið."

Mennirnir ýttu fjórum öðrum starfsmönnum inn í lítið skrifstofuherbergi og hófu að tæma peningaskápinn. „Þeir tóku mikið af skartgripum sem voru tilbúnir til sölu og vissu greinilega hverju þeir leituðu eftir. Ég kom svo upp á skrifstofuna þegar þeir voru í miðju kafi. Annar maðurinn var mjög árásargjarn og hljóp strax að mér en hinn kom strax á eftir með byssuna á lofti og beindi henni að andlitinu á mér. Báðir öskruðu þeir að ég ætti að leggjast niður ef ég vildi lifa. Síðan hlupu þeir út." Þjófarnir náðu þó ekki öllum verðmætum úr skápnum því þeir skildu eftir lítinn kassa sem þeir greinilega áttuðu sig ekki á að var fullur af demöntum.

Jóhannes segir upplifunina hafa verið mjög óraunverulega. „Maður er í bransa þar sem svona gerist reglulega en maður hugsar alltaf að þetta muni ekki koma fyrir sig." Hann segist hafa verið í miklu sjokki í gær eftir atvikið en starfsfólkið fékk um tveggja tíma áfallahjálp um hádegisbilið eftir að mennirnir voru farnir og er ráðgert að endurtaka hana aftur á morgun. „Þetta var mjög skrýtið og þegar ég var á leiðinni heim var ég mög var um mig í lestinni og þurfti að tékka á hverri einustu manneskju sem steig um borð. Mér líður samt mikið betur núna."

Jóhannes var í morgun ekki búinn að fá upplýsingar um hversu mikil verðmæti þjófarnir höfðu á brott með sér en gerir ráð fyrir því að fyrirtækið sé tryggt fyrir slíkum uppákomum. Í öllu falli mun hann halda áfram vinnu sína við gullsmíðarnar eins og ekkert hafi í skorist. „Það þýðir ekkert annað. Það er nóg að gera þannig að maður verður að mæta í vinnuna."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert