Frestun samþykkt

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. mbl.is/Ómar

Á fundi formanna aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands var samþykkt að fresta til júníloka endurskoðun kjarasamninga og þeim launahækkunum til félagsmanna á hinum almenna vinnumarkaði sem ættu að koma til 1. mars nk.

„Það er yfirgnæfandi meirihluti fulltrúa okkar aðildarfélaga sem telur skynsamlegast við núverandi aðstæður að fresta endurskoðuninni og freista þess að halda í innihald kjarasamningsins og ná því fram þó það verði kannski á síðari dagsetningum,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. Vísar hann þar til taxtahækkunar upp á 13.500 kr. á þessu ári og 17.500 kr. á næsta ári sem kveðið er á um í samningnum.

Að sögn Gylfa voru umræðurnar á fundinum bæði góðar og hreinskiptar, en niðurstaðan afgerandi. Aðspurður segir hann fulltrúar um 80% félagsmanna aðildarfélaga ASÍ hafa verið fylgjandi því að fresta endurskoðun kjarasamninga. 

„Ef vil uppsagnar á samningnum kæmi núna af hálfu atvinnurekenda, þá þyrftum við að byrja frá grunni,“  segir Gylfi og tekur fram að margir fundarmanna hafi verið sammála um að ólíklegt væri að fyrrgreind taxtahækkun myndi fást í nýjum samningi. 

„Það að reyna að þvinga fram launahækkanir við núverandi aðstæður mun annað hvort koma fram í fækkun starfa eða fjölgun hlutastarfa eða beinum launalækkunum þeirra sem eru með aðeins betri kjör,“ segir Gylfi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert