Fíkniefnahagnaði ráðstafað hér á landi

Hrun fjármálakerfisins haustið 2008 er tímamótaviðburður í sögu íslensku þjóðarinnar. Hruninu fylgja mestu efnahagsörðugleikar sem Íslendingar hafa glímt við á síðari tímum. Erfitt efnahagsástand og mikið atvinnuleysi mun á næstu árum setja mark sitt á þá skipulögðu glæpastarfsemi sem haldið er uppi á Íslandi. Umskiptum þessum fylgir að margir nýir möguleikar munu skapast fyrir afbrotamenn. Þetta kemur fram í matsskýrslu sem greiningardeild ríkislögreglustjóra hefur gert.

Á vef lögreglunnar kemur fram að um ítarlegra matsskýrslusé að ræða þar sem mat er lagt á skipulagða glæpastarfsemi og hættu á hryðjuverkum hér á landi.  Skýrslan hefur verið kynnt í ríkisstjórn.  Skýrslan er trúnaðarmál, en úrdráttur úr henni hefur verið birtur á vef lögreglunnar.

Fjárfest í fyrirtækjum með fíkniefnagróða

Ein af afleiðingum hruns fjármálakerfisins og þeirrar efnahagskreppu sem skollin er á verður sú að hagnaði af fíkniefnaviðskiptum verður í auknum mæli varið til fjárfestinga hérlendis. Á meðan gjaldeyrishöft eru í gildi og gengi íslensku krónunnar óhagstætt verður bæði erfitt og lítt ábatasamt að flytja hagnað af fíkniefnasölu úr landi.

„Um leið liggur fyrir að verð á fasteignum, fyrirtækjum og lausamunum ýmsum hefur fallið og á eftir að falla enn frekar, gangi spár eftir. Slíkar fjárfestingar, einkum fyrirtækjakaup, skapa margvísleg tækifæri til að fela ólögmæta starfsemi t.a.m. innflutning fíkniefna og peningaþvætti á bakvið löglegan rekstur.

Greiningardeild telur ástæðu til að vara sérstaklega við hættu á að fíkniefnahagnaði verði ráðstafað á þennan veg. Deildin býr yfir upplýsingum um að þessi þróun sé þegar hafin," að því er segir í skýrslunni.

Innlendir glæpamenn stórtækastir í fíkniefnainnflutningi

Hópar íslenskra ríkisborgara og hópar sem eiga upptök sín utan Íslands standa fyrir skipulögðum innflutningi á fíkniefnum til Íslands. Greiningardeild telur að enn séu innlendir glæpamenn og hópar þeim tengdir stórtækastir hér á landi á sviði innflutnings og sölu fíkniefna.

Öflugustu aðilar á sviði innflutnings fíkniefna og dreifingar munu halda starfsemi sinni áfram þrátt fyrir hrun fjármálakerfsins og líklegt er að einhverjir þeirra styrkist. Þetta á ekki síst við um íslenska innflytjendur fíkniefna sem starfa erlendis og þá sem hafa góð tengsl við erlenda glæpahópa. Slíkir hópar skapa vaxandi vanda fyrir lögregluna og kalla á aukið samstarf við yfirvöld í viðkomandi ríkjum.

Minna af kókaíni en meira heimabrugg

Líklegt er að neyslumynstur breytist nokkuð og að hlutur dýrari fíkniefna á borð við kókaín á markaði hérlendis fari minnkandi. Gera má ráð fyrir því að aukin áhersla verði lögð á framleiðslu örvandi efna á Íslandi. Þá upplýsti lögreglan í janúarmánuði að skipulagður stuldur á ræktunarlömpum væri til marks um stóraukna kannabisframleiðslu hér á landi, samkvæmt skýrslunni.

Mikil hækkun á verði áfengis og rýrnun kaupmáttar mun leiða til aukins smygls og sölu á heimabrugguðum vínanda.

Skipulagt vændi staðreynd á Íslandi

Skipulegri vændisstarfsemi er haldið uppi hér á landi. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu upplýsir að hingað til lands komi vændiskonur erlendis frá. Mikinn hluta tekna sinna senda stúlkur þessar úr landi. Starfsemi þessi tengist oft fíkniefnaheiminum. Efnahagsörðugleikum og vaxandi atvinnuleysi fylgir sú hætta að slík starfsemi eflist hér á landi.

Mansal eða verslun með fólk er þekkt fyrirbæri um allan heim og er talin vera sú glæpastarfsemi sem er í hvað örustum vexti nú um stundir. Grunur um mansal á Íslandi hefur löngum verið tengdur nektardansstöðum og vændi. Ísland virðist einkum vera gegnumstreymisland hvað varðar smygl á fólki.

Starfsvið handrukkara stækkar

„Í því erfiða efnahagsástandi sem nú ríkir er sú hætta fyrir hendi að svokölluðum „handrukkunum“, þ.e. innheimtu skulda með hótun um eða beitingu ofbeldis, muni fjölga. Fram til þessa hefur þess háttar „innheimtustarfsemi“ aðallega tengst fíkniefnaskuldum en nú eru vísbendingar um að slíkum aðferðum sé einnig beitt við innheimtu annarra og hefðbundnari skulda þegar viðtekin úrræði hafa ekki skilað árangri.
Jafnframt er varað við því að tilfellum ógnana og fjárkúgunar muni fjölga. Hið sama á við um ofbeldisbrot í auðgunarskyni.

Í vöxt mun færast að hópar ofbeldismanna bjóði fram „verndarþjónustu“ gagnvart fyrirtækjum og einstaklingum sem er í raun ein birtingarmynda fjárkúgunar.

Varað er við aukinni hættu á spennu í samskiptum skipulagðra glæpahópa vegna þeirrar gjörbreyttu stöðu sem skapast hefur, einkum á höfuðborgarsvæðinu, í kjölfar hruns íslenska fjármálakerfsins. Aukinni samkeppni við þrengi aðstæður en áður fylgir hætta á átökum," samkvæmt skýrslu greiningardeildarinnar.

Hér er hægt að lesa úrdrátt greiningardeildarinnar í heild

Fall á fasteignaverði skapar tækifæri til að fela peningaþvætti og …
Fall á fasteignaverði skapar tækifæri til að fela peningaþvætti og fíkniefnagróða mbl.is
mbl.is/Júlíus
mbl.is/Árni Torfason
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert