Frumvarp um fækkun nefnda komið fram

Fastanefndum Alþingis verður fækkað úr 12 í 7 samkvæmt frumvarpi sem Sturla Böðvarsson, fyrrverandi forseti Alþingis lagði fram á þinginu í dag. Níu þingmenn verða í hverri nefnd samkvæmt frumvarpinu. Þingmenn munu því almennt aðeins sitja í einni nefnd í stað tveggja eða þriggja líkt og er samkvæmt gildandi fyrirkomulagi.

Sturla Böðvarsson fyrrverandi forseti Alþingis sagði við þingfrestun 22. desember, að hann teldi rétt að fækka fastanefndum þingsins úr 12 í 7. Í því fælist verulegur fjárhagslegur sparnaður og margvísleg hagræðing. Sturla lagði frumvarp um fækkun fastanefnda fram á Alþingi í dag en flutningsmenn með honum eru Jón Magnússon, utan flokka og Valgerður Sverrisdóttir, Framsóknarflokki.

Samkvæmt frumvarpinu yrðu fastanefndirnar sjö, Allsherjar- og menntamálanefnd, Atvinnumálanefnd, Efnahags- og viðskiptanefnd, Fjárlaganefnd, Heilbrigðis- og félagsmálanefnd, Umhverfis- og samgöngunefnd og Utanríkismálanefnd.

Í hverja nefnd skulu kosnir níu þingmenn en níu þingmenn sitja í hverri fastanefnd í dag, nema í fjárlaganefnd, þar sitja nú 11 þingmenn.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að helstu rökin fyrir breytingunum séu þau að þær muni efla löggjafarstarfið. Fastanefndirnar verði færri og hver nefnd muni fjalla um fleiri málaflokka en áður. Það gefi nefndarmönnum m.a. meiri möguleika á að hafa heildaryfirsýn yfir tengd málasvið. Slíkt muni jafnframt styrkja eftirlitshlutverk þingsins.

Þá feli breytingarnar í sér hagræðingu í störfum fastanefndanna. Með fækkun fastanefnda gefist tækifæri fyrir nefndirnar til að funda oftar og lengur ef þörf krefur. Það hafi oft verið erfitt að komast hjá því að fundir nefnda skarist þegar fjöldi þeirra er svo mikill, en með fækkun þeirra í sjö muni draga úr þessum árekstrum og auðveldara verði að skipuleggja fundi nefndanna. Þá muni skapast betri tækifæri og tími til að halda opna nefndafundi, en slíkir fundir krefjist oft meiri tíma en hefðbundnir nefndafundir.

Í greinargerðinni segir ennfremur að þingmenn eigi oft sæti í fleiri nefndum en einni, jafnvel fjórum, en með fækkun og stækkun nefnda muni þingmenn almennt sitja í einni nefnd en nokkrir þeirra þó í tveimur nefndum. Slíkt muni einfalda skipulag nefndastarfsins og leiða til betri nýtingar á fundartíma nefndanna. Sérstaklega mun þetta eiga við á nefndadögum. Æskilegt sé þó að nefndarmenn í fjárlaganefnd sitji ekki í öðrum nefndum.

Loks telja flutningsmenn að breytingarnar muni leiða til þess að skipulag starfa á nefndasviði Alþingis verði einfaldara og aukið svigrúm gefist til þess að hver fastanefnd geti haft yfir að ráða öflugum hópi sérfræðinga og annars starfsfólks. Þannig verði hægt að veita hverri nefnd meiri aðstoð og betri þjónustu en nú er hægt að gera.

Gert er ráð fyrir að lög um breytta nefndaskipan öðlist gildi við upphaf næsta löggjafarþings eftir samþykkt þeirra.

Frumvarp um fækkun fastanefnda

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert