Gengi krónunnar styrkist

Gengi krónunnar heldur áfram að sækja í sig veðrið og er gengi hennar nú hærra gagnvart flestum helstu gjaldmiðlum en verið hefur frá bankahruninu í október, að því er kemur fram í Morgunkorni Greiningar Glitnsis.

Gengisvísitala krónunnar hefur ekki breyst í dag en í gær hækkaði gengi krónunnar um 1,5%. Gengi evrunnar er nú 143 krónur og hefur ekki verið lægra gagnvart krónu síðan í septemberlok í fyrra. Bandaríkjadalur kostar 114 krónur en hann fór lægst í 111 krónur fyrir rúmri viku.

Glitnir segir, að óhætt sé að segja að áætlun íslenskra yfirvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um að ná stöðugleika í gengi krónu og styrkja hana, m.a. með takmörkunum á fjármagnsflæði, inngripum á gjaldeyrismarkaði og háum innlendum vöxtum, hafi hrokkið í gírinn eftir nokkuð brösuglega byrjun í desember. Krónan styrktist um 11% gagnvart helstu viðskiptamyntum í janúar og það sem af er febrúar nemur styrkingin 1,5 prósentum. Árangurinn gagnvart evru sé enn betri, en miðað er við gengi krónu gagnvart evru í aðgerðaráætluninni. Verð evru í krónum hafi þannig lækkað um rúm 17 prósentur í janúar og hafi til viðbótar lækkað um tæplega 2 prósentur í febrúar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert