Segir Íslendinga enn hamingjusama

Blaðamaðurinn sjónumhryggi Eric Weiner.
Blaðamaðurinn sjónumhryggi Eric Weiner.

Bandaríski rithöfundurinn Eric Weiner, sem nýlega skrifaði bók um leit sína að hamingjunni, segir að þrátt fyrir bankahrunið á Íslandi séu Íslendingar enn meðal hamingjusömustu þjóða í heimi. 

Í bók sinni The Geography of Bliss, sem vakti mikla athygli í Bandaríkjunum á síðasta ári og stendur til að kvikmynda, sagði Weiner frá ferðum sínum til 10 landa, þar á meðal Íslands, þar sem hann leitaði skýringa á því hvers vegna sumar þjóðir væru hamingjusamari en aðrar.

Weiner komst m.a. að því að hamingja Íslendinga stafaði af því að atvinnuleysi væri nánast óþekkt á Íslandi. Þá sagði hann, að í einangrun sinni andspænis miskunnarlausum náttúruöflum hefðu Íslendingar hæglega getað farið rússnesku leiðina, örvæntingar og drykkju. En í staðinn hafi þessir harðgerðu synir og dætur víkinganna horft upp í gínandi myrkrið á hádegishimninum og kosið hamingju og drykkju. „Það er, að ég held, skynsamlegri kostur. Og hvað annað ætti fólk svo sem að hafa fyrir stafni í myrkrinu?" spyr hann í bókinni.

Þótt forsendur Wieners hafi nú breyst verulega að því er varðar Ísland, fullyrðir hann að Íslendingar séu enn hamingjusamir. Í sjónvarpsviðtali, sem hægt er að skoða á YouTube, segist hann hafa reynt að sýna fram á það í bók sinni, að hamingja sé meira en peningar. Fólk geti haft áhyggjur af framtíð sinni en jafnframt verið hamingjusamt, og það eigi nú við um Ísland. Íslendingar séu rótgróin lista- og menningarþjóð og einnig drykkjumenn. „Með aðstoð þessara þriggja þátta er ég viss um að Íslendingar munu standa af sér stórviðrin," segir Weiner.

„Ráðlegging mín til þjóða, sem eiga við efnahagserfiðleika að etja er: Takið því opnum örmum og verið eins og Íslendingarnir," segir Weiner. „Munið að hamingja er annað og meira en peningar og á meðan maður hefur efni á einum gráum þarf maður ekki að örvænta."

Viðtalið við Eric Weiner

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert