Heimilin skulda 2.000 milljarða króna

Skuldsetning íslenskra heimila hefur á síðustu árum vaxið hratt og eru
samanlagðar skuldir heimilanna nú um 2.000 milljarðar króna. Þar af eru um 1.400 milljarðar verðtryggð lán og 370 milljarðar gengistryggð lán. Áætla má að heimili í landinu séu um 110.000 talsins og eru meðalskuldir hvers heimilis samkvæmt því ríflega 18 milljónir. Þetta kemur fram í nýrri samantekt hagdeildar ASÍ um skuldir heimilanna.

Skuldir hækka, greiðslubyrði eykst og ráðstöfunartekjur lækka. Þetta er veruleikinn í heimilisbókhaldi flestra fjölskyldna í dag. Staðan veldur mörgum heimilum verulegum vanda en hjá flestum er vandinn þó tímabundinn og úrræði í boði sem gera fólki kleift að vinna sig út úr honum með tímanum. Sá hópur sem við þurfum sértæk úrræði fyrir til þess að forða frá gjaldþroti, eru þau heimili sem í fyrirsjáanlegri framtíð munu ekki geta staðið undir skuldbindingum sínum og hafa verulega neikvæða eignarstöðu sem ólíklegt er að þeim takist að snúa við.

Fólk á þrítugs- og fertugsaldri skuldar mest

Í heildina eru það hóparnir á þrítugs- og fertugsaldri sem eru viðkæmastir. Þetta eru skuldsettustu hóparnir, með hlutfallslega hæstu greiðslubyrðina og flest börn á framfæri. Líkur eru til þess að í þessum hópi séu einnig flestir þeir sem komið hafa inn á húsnæðismarkaðinn með lítið eigið fé á síðustu tveimur árum og sitja nú í yfirveðsettum eignum.

Á síðustu árum hafa gengistryggð lán heimilanna aukist mikið og á sama tíma hefur hlutur verðtryggðra lána minnkað sem gert hefur heimilin viðkvæmari fyrir sveiflum í gengi krónunnar en áður.

Staða heimilanna viðkvæm

Staða margra heimila er viðkvæm. Skuldir hafa á síðustu mánuðum hækkað hratt vegna mikillar verðbólgu og veikingar krónunnar sem hvort tveggja hefur valdið hækkun á höfuðstól skulda og hækkað greiðslubyrði heimilanna. Á sama tíma hefur fjöldi fólks misst atvinnu sína að hluta eða öllu leyti og margir orðið fyrir miklum tekjusamdrætti og í ofanálag hafa allar brýnustu nauðsynjar hækkað mikið í verði. Þessi alvarlega staða sem nú blasir við heimilunum kallar á nánari greiningu á umfangi vandans, í hverju hann felst og hvaða hópar samfélagsins eru verst settir og líklegastir til að lenda í erfiðleikum á næstu misserum. Út frá slíkri greiningu er unnt átta sig á því til hvaða aðgerða er brýnt að grípa og hvar þeirra er mest þörf.

Skuldirnar væntanlega mun meiri í dag

Til að greina stöðu mismunandi hópa er hér að mestu notast við tölur um tekjur, eignir og skuldir frá Ríkisskattstjóra sem unnar eru úr skattframtölum. Byggt er á gögnum frá samsköttuðum einstaklingum, hjónum og sambúðarfólki, sem gefa ágæta heildarmynd af stöðunni. Nýjustu upplýsingar sem fyrir liggja eru úr framtalsgögnum frá árinu 2008 sem segja til um stöðu heimilanna í lok árs 2007. Ljóst er að miklar breytingar hafa orðið bæði í tekjum, eignum og skuldum hjá mörgum heimilum á því ári sem liðið er síðan þessar tölur voru gefnar upp. Þær geta samt sem áður gefið ágæta vísbendinu um hvaða hópar eru viðkvæmastir fyrir og í mestri hættu á að lenda í vanda við breyttar aðstæður, að því er segir í skýrslunni.

Skýrslan í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert