Loðnukvóta strax

Lundey NS. Mynd fengin af vef HB Granda.
Lundey NS. Mynd fengin af vef HB Granda.

„Sjávarútvegsráðherra ætti nú þegar að gefa út 50 til 70 þúsund tonna loðnukvóta. Það er vel innan skekkjumarka og setur stofninn ekki á hliðina. Ástandið í þjóðfélaginu er þannig að ráðherra getur ekki leyft sér að hafast ekki að, það skiptir hver einasta króna máli,“ segir Lárus Grímsson, skipstjóri á Lundey NS.

Lárus segir engan tala um að það séu fleiri hundruð þúsund tonn af loðnu í sjónum, eins og var á árum áður, en loðnan sé í miklu meira magni en fræðingar vilji viðurkenna. Lárus segir sorglegt að ekki hafi þegar verið gefinn út 50 til 70 þúsund tonna loðnukvóti.

Áhöfnin á Lundey NS fór til loðnuveiða út af Reykjanesi í nótt og fengust þar 1.250 tonn af loðnu í þremur köstum. Skipið er nú á leiðinni til Vopnafjarðar þar sem loðnan fer til hrognatöku, í frystingu og bræðslu.

Lárus segir að hrognafyllingin í loðnunni sé um 25-26% og hlutfall hrygnu og hængs í aflanum sé jafnt. Lundey NS verður á Vopnafirði á sjötta tímanum í dag og hefst þá langþráð hrognavinnsla í fiskiðjuveri HB Granda. Stefnt er að því að Faxi RE fari til veiða á morgun og Ingunn AK á mánudag ef veðurspáin gengur eftir en loðnuafla allra skipanna verður landað á Vopnafirði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert