Cosser ræðir við Fréttablaðsmenn

Steve Cosser
Steve Cosser

„Það liggur fyrir að við höfum enn áhuga á samstarfi um prentun og dreifingu og það var umræðuefni fundarins,“ segir Ari Edwald, forstjóri 365.

Ástralski fjárfestirinn Steve Cosser, sem fer fyrir einum þriggja hópa sem gerðu tilboð í Árvakur, þingaði í dag með eigendum Fréttablaðsins.

Samkeppniseftirlitið hafnaði á dögunum hugmyndum um að sameina prentun og dreifingu Fréttablaðsins og Morgunblaðsins. Ari segir að þau skilyrði sem sett voru af hálfu Samkeppniseftirlitsins, hafi verið óaðgengileg. Cosser hafi hins vegar viljað kynna sér þá samninga sem voru til staðar og voru undirritaðir í október milli félaganna. Ennfremur í hverju skilyrðin sem Samkeppniseftirlitið setti, fólust.

„Við gátum ekki beygt okkur undir þau skilyrði sem Samkeppniseftirlitið setti fyrir samstarfi með Árvakri, miðað við þær forsendur sem uppi voru. En það er ekki þar með sagt að það sé ekki skynsamlegt að gera þetta. Það þarf bara að fara yfir forsendurnar á ný. Viðræðurnar við Cosser snerust m.a. um það hvort hægt væri að endurvekja málið,“ segir Ari Edwald.

Íslandsbanki tekur líklega á morgun afstöðu til þeirra tilboða sem bárust í Árvakur. Þrjú skuldbindandi tilboð bárust og voru tvö tekin til nánari skoðunar. Tilboð Cossers og viðskiptafélaga hans er annað þeirra, hitt er tilboð frá hópi sem Óskar Magnússon fer fyrir.

Ari Edwald vildi ekki tjá sig um hvort samkomulag hefði verið gert við Cosser með fyrivara um niðurstöðuna hjá Íslandsbanka.

“Ég tel víst að við munum eiga samtöl við Cosser áfram ef svo fer að hann eignist Árvakur,“ segir Ari Edwald.

Ari Ewdald, forstjóri 365 miðla.
Ari Ewdald, forstjóri 365 miðla. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert