Aukin bindiskylda hefði engu máli skipt

Davíð Oddsson seðlabankastjóri sagði í Kastljósi RÚV í kvöld að þótt bindiskylda íslensku bankanna hefði verið aukin, eins og mikið hafi verið talað um í vetur, að hefði þurft að gera áður en bankakerfið hrundi í haust, hefði það ekki skipt neinu máli.

„Á meðan bankarnir höfðu endalausan aðgang að erlendu fé hafði bindskyldan engin áhrif á þá. Aukin bindiskylda hefði aðeins orðið til þess að þrengja að hag innlendra sparisjóða.“ Aukin bindiskylda hefði aðeins skekkt samkeppnisstöðu þeirra.

Davíð sagði umræðuna um bindiskylduna eitt af því sem notað hefði verið til þess að sverta seðlabankann.

Þegar Sigmar Guðmundsson spurði Davíð hvort það hefðu ekki verið mistök hjá stjórnendum bankans að auka ekki gjaldeyrisvaraforða þjóðarinnar, eins og mikið hefur verið talað um, sagði hann svo alls ekki vera.

Davíð sagði gjaldeyrisvaraforðann, í allri annarri viðmiðun en stærð íslensku bankanna, stærri en víðast annars staðar í heiminum. Ef forðinn hefði átt að vaxa í hlutfalli við vöxt bankanna væru Íslendingar skórskuldug þjóð nú. „Það var lán í öllu þessu óláni að við gerðum þetta ekki,“ sagði Davíð.

Davíð sagði í viðtalinu að hefði seðlabankinn gert einhver mistök væri það að hann hefði ef til vill átt að leggja minni áherslu á verðbólgu en meiri á að gengi krónunnar yrði ekki of hátt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert