„Fylltum seðlabankann af fólki úr gömlu bönkunum“

Davíð Oddsson.
Davíð Oddsson.

Davíð Oddsson seðlabankastjóri segir bankann hafa notið trausts hjá erlendum bönkum, eftir að viðskiptabankarnir þrír hrundu í haust. Þess vegna hafi hann haldið öllu gangandi gagnvart Íslendingum.

Davíð spurði hver hefði haldið öllu uppi þegar bankakerfið hrundi, og svaraði: Seðlabanki Íslands; en þar á bæ hefði reyndar ekki verið talað mikið um það. Allir bankarnir þrír hefðu hrunið en hvar sem menn voru staddir í heiminum með sitt kreditkort hefðu þeir getað haldið sínu striki vegna þess að seðlabankinn greip inn í „og tilkynnti að hann bæri ábyrgð á öllum greiðslum Íslendinga hvar sem þeir væru staddir. Þess vegna hélt hann þessu öllu saman gangandi.“

Davíð sagði einnig: „þegar þurfti að koma greiðslum til landsins vildi enginn setja greiðslur í gegnum bankakerfið en allir treystu seðlabankanum. Greiðslur fóru allar í gegnum seðlabankann. Við fylltum bankann af fólki úr gömlu bönkunum til að halda greiðslukerfinu við útlönd opnu. Ég hef heyrt stjórnmálamenn hrósa sjálfum sér fyrir þetta. Þeir komu ekki nálægt því.“

Þegar greiðslur stöðvuðust síðan til  nýju bankanna segir Davíð að seðlabankastjórarnir hafi haft samband við starfsbræður sína erlendis og beðið þá um að þrýsta á aðra erlenda banka að skila greiðslum til Íslendinga. „Og það var gert vegna þess að Seðlabanki Íslands naut trausts.“

Davíð var í viðtalinu mikið spurður um traust á seðlabankanum og sagði að eina mælingin sem gengi upp í því sambandi væri hvernig menn bregðist við gagnvart óskum bankans og hvort honum  væri treyst í raun. „Og honum var fullkomlega treyst í raun.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert