Refsivert að kaupa vændi

Refsivert verður að kaupa vændi, samkvæmt frumvarpi sem Atli Gíslason, þingmaður VG flytur ásamt 12 öðrum þingmönnum VG, Samfylkingar og Framsóknarflokks. Samkvæmt frumvarpinu skal hver sá sem greiðir eða heitir greiðslu eða öðrum ávinningi fyrir vændi, sæta sektum eða fangelsi allt að einu ári. Þá er lagt til að ef greitt er fyrir vændi barns yngra en 18 ár varði það allt að tveggja ára fangelsi.

Í frumvarpinu segir að ekki skipti máli í hvaða formi greiðslan er. Hún geti verið peningar, áfengi eða fíkniefni, hlutir eða eitthvert viðvik, greiði eða þjónusta.

Þá er ekki áskilið að greiðslan eða loforð um hana renni til þess sem veitir þjónustuna enda háttsemi milligöngumanns refsiverð samkvæmt hegningarlögum. Að sama skapi er athæfið saknæmt ef vændið er keypt fyrir þriðja aðila.

Frumvarpinu er ætlað að lögfesta svokallaða sænska leið sem gerir kaup á vændi refsivert en Norðmenn fetuðu nýlega í fótspor Svía með því að kveða á um refsinæmi þess að kaupa vændi.

Sambærilegt frumvarp hefur nokkrum sinnum verið lagt fyrir Alþingi. Á 130. löggjafarþingi var málið afgreitt frá allsherjarnefnd þar sem meirihluti nefndarinnar lagði til að frumvarpið yrði samþykkt. Það komst þó ekki til annarrar umræðu. Ein breyting hefur verið gerð frá því frumvarpi sem lagt var fram á síðasta löggjafarþingi þar sem nýrri málsgrein er bætt við sem kveður á um þyngri refsingu ef vændið beinist gegn barni yngra en 18 ára.

Frumvarpið í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert