Engin störf tapast í fiskvinnslu vegna hvalveiða

mbl.is/Halldór Sveinbjörnsson

„Það hafa engin störf tapast í fiskvinnslu vegna hvalveiða okkar. Að halda slíku fram er oftúlkun á innihaldi bréfs bresku Waitrose-verslanakeðjunnar til íslenskra stjórnvalda,“ segir Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna, LÍÚ.

Friðrik segir á vef LÍÚ að það sé ábyrgðarhluti að kynda undir áhyggjum og óöryggi fólks á vinnumarkaði með tilhæfulausum vangaveltum í því ástandi sem hér ríkir. Í bréfi Waitrose sé á engan hátt hægt að lesa beina eða óbeina hótun um að til standi að rifta viðskiptasamningum við íslensk fiskvinnslufyrirtæki.

„Mér sýnist að í bréfi Waitrose sé fyrirtækið fyrst og fremst að lýsa afstöðu sinni til ákvörðunar um auknar hvalveiðar. Það má ekki gleymast í þessu samhengi að hvalveiðar hófust hér að nýju árið 2003 og þær hafa ekki truflað viðskiptin,“ segir Friðrik.

Í bréfi Waitrose segir m.a.: „Við höfum myndað sterk tengsl við Ísland vegna viðskipta með sjávarafurðir. Árið 1999 tókum við þá ákvörðun að selja eingöngu íslenskan þorsk og ýsu vegna  mikilla gæða og sjálfbærrar nýtingar fiskistofna.“

Í frétt Guardian frá því í fyrradag er greint frá því að fulltrúi Waitrose hafi verið á ferð á Íslandi fyrir skömmu til þess að ganga úr skugga um að engin tengsl væru á milli hvalveiða og þeirra fyrirtækja sem selja verslunarkeðjunni fiskafurðir.  Jeremy Langley fulltrúi Waitrose segir í fréttinni að fyrirtækið muni útskýra málavöxtu fyrir viðskiptavinum og valið sé auðvitað á endanum þeirra.

Bréf Waitrose má nálgast hér og hér.

Friðrik Arngrímsson
Friðrik Arngrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert