Nýr fréttavefur

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokks, segir í pistli á nýjum vefmiðli, pressunni.is, að grunnstefna Sjálfstæðisflokksins hafi ekki brugðist í ljósi efnahagshrunsins. Hins vegar hafi vinnubrögðin og aðferðafræði síðustu ára við að útfæra stefnuna verið röng og flokkinn því borið af leið.

„Það má segja að við höfum sofnað á verðinum og ræktuðum ekki þau grunngildi sem við ætluðum okkur að byggja á. Við fjarlægðumst grunninn okkar og gleymdum okkur í látunum. Við eyddum of miklu. Sýndum ekki aðhald í ríkisútgjöldum. Horfðumst ekki í augu við ört vaxandi ofurlaun.  Með því að stinga höfðinu í sandinn sýndum við ábyrgðarleysi," segir Þorgerður Katrín m.a. 

Að nýja vefnum stendur félagið Vefpressan, sem er í eigu Björns Inga Hrafnssonar, Arnars Ægissonar og Salt Investments, fjárfestingarfélags Roberts Wessmans.  

Að sögn Björns Inga vilja þeir, sem að vefnum standa, taka þátt í þeirri umbreytingu,  sem er að verða í fjölmiðaheiminum, en fréttaumfjöllun og þjóðmálaumræða er í stöðugt meiri mæli að færast yfir á netið.

Þá sé mikið um að vera í samfélaginu og ýmislegt að fjalla um og í því vilji þau taka þátt og reyna að vera með fjölbreyttan vettvang, þjóðfélagsumræðu og fréttir og dægurmál.

Auk Björns Inga skipa ritstjórn pressunnar.is þau Steingrímur Sævarr Ólafsson, Marta María Jónasdóttir og Henrý Þór Baldursson teiknari.

Pressan.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert