Tregða við upplýsingagjöf

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari.
Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari. mbl.is/Kristinn

Sérstakur saksóknari og menn hans eru að verða óþreyjufullir og vilja fara að vaða inn í mál. Rennsli mála frá eftirlitsstofnunum hefur ekki verið mikið frá því embættið var sett á fót en útlit er fyrir að krafturinn sé að aukast. Saksóknarinn býst enda sjálfur við að á næstunni muni steypast yfir hann pappírar sem fara þarf strax í gegnum.

Heimildir saksóknarans verða auknar frá því sem nú er ef frumvarp um breytingar á lögum um embættið nær fram að ganga. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins var farið fram á heimildirnar vegna tregðu hjá stofnunum við að veita upplýsingar og gögn, s.s. hjá Fjármálaeftirlitinu.

Hefur ekki of langan tíma

Sjálfur segir Ólafur Þ. Hauksson, sérstakur saksóknari, að verið sé að skýra línur gagnvart stofnunum sem embættið hefur samskipti við.

„Við höfum átt í góðu samstarfi við flesta aðila, en ef það koma upp vafaatriði eru þau til þess fallin að tefja starf embættisins og satt best að segja hef ég ekki of langan tíma,“ segir hann við Morgunblaðið í dag.

Ólafur segist hafa átt von á að stærri mál kæmu strax á borð til sín. Skortur á þeim kunni að skýrast af því að skammt er liðið frá því að lokið var við endurskoðunarskýrslur frá bönkunum. Embættið er þó með nokkur „konkret“ mál sem byrjað er að greina og fara hugsanlega í opinbera rannsókn.

Tvö ár ekki nóg

Eftir tvö ár verður embætti sérstaks saksóknara endurskoðað; það lagt niður, sameinað eða starfrækt í sömu mynd. Ólafur segir að af fyrsta mánuðinum megi ráða að verkefnin sem nú taka við taki lengri tíma en þessi tvö ár.

Fjórir menn eru í fullu starfi við embættið en síðar kann að koma í ljós að sérstakt starfslið þurfi til sem verður bundið þessari vinnu í nokkur ár.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert