Fengu ekki fyrirgreiðslu

mbl/hag

Fyrrverandi forsvarsmenn Landsbankans staðhæfa í athugasemd vegna umfjöllunar Kastljós í Sjónvarpinu fyrr í kvöld að Landsbankanum hafi verið boðið upp á þann möguleika að Icesave innlánareikningar bankans í Bretlandi yrðu færðir með flýtimeðferð  yfir í dótturfélag hans þar í landi gegn 200 milljón sterlingspunda greiðslu bankans til Bretlands vegna útstreymis af Icesave reikningum og tiltekinna annarra ráðstafanna.

Athugasemdin er eftirfarandi:

Eins og fram kemur í yfirlýsingu fyrrum stjórnenda Landsbankans frá 14. október 2008 átti Landsbankinn í viðræðum við breska fjármálaeftirlitið (FSA) um að Icesave innlánareikningar bankans í Bretlendi yrðu færðir með flýtimeðferð (e. fast track) yfir í dótturfélag hans þar í landi. Var Landsbankanum boðið upp á þann möguleika gegn 200 milljón sterlingspunda greiðslu bankans til Bretlands vegna útstreymis af Icesave reikningum og tiltekinna annarra ráðstafanna. Landsbankinn kom upplýsingum um þennan möguleika til fulltrúa stjórnvalda. Þar sem Landsbankinn fékk ekki fyrirgreiðslu Seðlabankans eins og óskað var þann 6. október til að greiða umræddar 200 milljónir sterlingspunda varð formlegt samkomulag um þetta efni aldrei að veruleika. Kann það að skýra svör breskra aðila við spurningum íslenskra blaðamanna.

Upplýsingum þessum var komið til umsjónarmanna Kastjóss fyrr í dag en þær ekki birtar.

Fyrir hönd fyrrverandi stjórnenda Landsbankans

Halldór J Kristjánsson  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert