Biskupinn kominn á facebook

Biskup Íslands, Karl Sigurbjörnsson.
Biskup Íslands, Karl Sigurbjörnsson.

Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, hefur opnað vefsvæði á facebook samskiptavefnum. Biskupsstofa hefur að undanförnu opnað vefsvæði á facebook, með það fyrir augum að koma upplýsingum til fólks sem á um sárt að binda, meðal annars vegna efnahagsþrenginga. Fólk sækir í auknu mæli í þjónustu kirkna.

Á skömmum tíma hefur meirihluti Íslendinga opnað sér vefsvæði á samskiptavefnum facebook. Kannanir hafa sýnt, að meira en 75 prósent fólks á milli 20 og 40 ára hefur stofnað vefsvæði á facebook. 

Elín E. Jóhannsdóttir, fræðslufulltrúi Biskupsstofu, segir stofuna hafa stofnað tvö vefsvæði á facebook samskiptavefnum sem ætluð eru til fræðslu fyrir fólk. Annað heitir; leggjum rækt við okkur sjálf, og hitt; hlúum að börnunum. Þar eru sett inn myndbönd sem fólk getur kynnt sér til fróðleiks.

Elín segir mikið álag hafa verið hjá þeim sem koma að safnaðar og kirkjustarfi í landinu, síðan bankarnir hrundu í byrjun október í fyrra. „Við finnum fyrir auknu álagi, eins og skiljanlegt er og við viljum reyna eftir fremsta megni að koma til móts við þann mikla fjölda sem leitar til okkar vegna erfiðleika. Við viljum reyna að vera sýnileg í þessu árferði og þess vegna er facebook vefurinn góður staður fyrir upplýsingar,“ sagði Elín í samtali við mbl.is.

Karl var staddur á prófastafundi þegar mbl.is hafði samband við Biskupsstofu, og gat því ekki veitt viðtal.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert