Fundað um stjórnarsamstarfið

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Ómar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, situr nú fund með Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, og Steingrími J. Sigfússyni, formanni Vinstri grænna. Til umræðu eru stjórnarsamstarf VG og Samfylkingar og þáttur Framsóknarflokksins í að verja stjórnina falli.

Rétt áður en Sigmundur Davíð fór inn á fundinn, náði mbl.is tali af honum. Sigmundur Davíð sagði það ekkert launungarmál, að Framsóknarmenn væru ósáttir við hversu hægt gengi að koma málum áleiðis í stjórnarsamstarfinu. Enn væri hætta á algjöru kerfishruni, ef ekkert yrði að gert.

„Okkar tillögur um efnahagsúrbætur, í næstum 20 liðum, voru tilraun til þess að fá stjórnarflokkanna til þess að tala um kjarna málsins í íslenskum stjórnmálum nú um stundir. Sem er, að nýta allan þann tíma sem mögulega gefst til þess að grípa til sértækra aðgerða til að fyrirbyggja endanlega möguleikann á kerfishruni, með tugþúsundum gjaldþrota heimila og fyrirtækja. Einhverra hluta vegna hafa stjórnarflokkarnir ákveðið að einblína á eina okkar tillagna, sem er afskrift skulda. Eins og ég hef bent á, þá byggir hún öðru fremur á því að senn fer fram mörg þúsund milljarða afskrift á skuldum, og á þeim forsendum er mögulegt að leyfa heimilum og fyrirtækjum að njóta beint góðs af því. Hins vegar er því ekki að leyna, að öðru fremur snéru tillögurnar að því að ýta við stjórnarflokkunum, og fá þá til að einbeita sér að því sem máli skiptir. Sem eru bráðaðgerðir fyrir atvinnulífið og heimili. Pólitískt starf byggir á því að ná saman um lausnir, og í því ljósi eru tillögurnar ekki endanlegar heldur þarf að útfæra þær þannig að allir sem koma að málinu séu sáttir við þær,“ sagði Sigmundur Davíð áður en hann steig inn á fund.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert