Hér var ekki hörð frjálshyggja

Bjarni Benediktsson formannsefni Sjálfstæðisflokksins fagnar vinnu endurreisnarnefndar Sjálfstæðisflokksins þótt hann segist ekki gera öll sjónarmið þar að sínum. Í drögum vinnuhópa endurreisnarnefndarinnar er að finna harða gagnrýni á forystu Sjálfstæðisflokksins,stjórn efnahagsmála, Seðlabankann og eftirlitsstofnanir, auk þess sem framkvæmd einkavæðingar bankanna er  gagnrýnd.

Bjarni segist sakna þess að fyrrum samstarfsflokkar Sjálfstæðisflokksins horfist í augu við sína ábyrgð. Hann segir flokkinn ekki þurfa hugmyndafræðilegt uppgjör og segist ekki telja að Sjálfstæðisflokkurinn hafi rekið hér harða frjálshyggju. Einkavæðingarferlið hafi verið skynsamlegt þótt því hefði átt að fylgja öflugra regluverk. Hann telur ekki að það eigi að hverfa frá opnum markaðsbúskap til ríkisforsjárhyggju. Það væru mestu mistökin sem hægt væri að gera.

Hik í Evrópumálum er eitt að því sem fundið hefur verið flokksforystunni til foráttu í vinnuhópum endurreisnarnefndarinnar. Bjarni Benediktsson segist tala fyrir því að flokkurinn skilgreini nánar þær hindranir sem séu á aðild að Evrópusambandinu. Hann telji hagsmunum þjóðarinnar ágætlega borgið utan Evrópusambandsins. Á landsfundi verði þó að öllum líkindum stigin ákveðin skref í aðra átt og því sé skynsamlegt að forysta flokksins hafi vítt umboð til að leita samstarfs við aðra flokka um viðræður um frekari samvinnu við Evrópusambandið. Hagsmunum landsins sé þó best borgið með áframhaldandi aðild að EES samningnum.

Aðspurður um hvernig það gæti farið saman að vilja vítt umboð til að sækja um aðild að Evrópusambandinu og eins að vera á móti aðild, segir Bjarni að málið snúist um að Sjálfstæðisflokkurinn verði að treysta fólkinu í landinu til að taka endanlega afstöðu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert